154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:08]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmist of seint af stað farið eða þá að við erum að æða af stað, þannig að hv. þingmaður verður að finna eitthvað út úr því hvort hann aðhyllist í því.

En svona að öllu gamni slepptu þá hefur auðvitað utanumhaldið um málið tekist ótrúlega vel í heildina, ef við tölum um stóru tölurnar í málinu, þó að það sé sannarlega rétt að enn eru óleyst mál. Við höfum leitast við á vettvangi stjórnvalda að samhæfa verkefni og viðfangsefni Stjórnarráðsins og það hefur verið gert. Nú erum við að koma fram með þetta frumvarp og ég vænti þess að þingið muni taka á því með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.

Varðandi síðan mönnun í framkvæmdanefndinni þá þurfa það að vera reynsluboltar. Það þarf að vera fólk sem kann, veit, skilur, þekkir og hefur reynslu til að takast á við verkefni af þessari stærðargráðu. En það er sannarlega þannig að ekkert okkar hefur séð svona verkefni áður.