154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Við ræðum hér svo sannarlega óvenjulegt mál í óvenjulegri stöðu. Á meðan hefðbundið þingmál er kannski með einstaka álitaefni inn á milli þá eru eiginlega ekkert nema álitaefni í þessu máli þannig að það verður áhugavert að rýna það í nefndinni og mikilvægt að við vöndum til verka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur atriði. Í fyrsta lagi varðandi 6. gr. þar sem talað er um heimild framkvæmdanefndar Grindavíkurbæjar og annarra stjórnvalda til að miðla á milli sín upplýsingum og gögnum eftir því sem þurfa þykir, vegna þess að hér erum við að tala um mjög viðkvæmar upplýsingar. Við erum að tala um allar félagsþjónustuna, barnaverndina, skóla og frístund. Við erum að tala um viðkvæmustu persónuupplýsingar sem sveitarfélagið býr yfir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki þyrfti að búa aðeins betur þennan þátt; hvort það þurfi ekki að meta áhrif á persónuvernd, hvort það þurfi ekki að útfæra þetta skýrar í lagatexta eða hvort ráðuneytið hafi skoðað það.