framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ábendingu. Eins og kemur fram í innganginum að spurningu hans er nánast hvert einasta ákvæði í þessu frumvarpi ákvæði sem við erum að sjá í fyrsta skipti og m.a. það ákvæði sem hv. þingmaður nefnir og er það ákvæði sem geymir fyrirmæli um heimild framkvæmdanefndar til að afla upplýsinga frá stjórnvöldum. Það er talin þörf á því, eins og kemur fram um ákvæðið í greinargerðinni, að tryggja nefndinni aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem hún þarf til að rækja hlutverk sitt því að annars verði það vandkvæðum bundið. Ef nefndin hefur ekki lagaheimild þá er hætt við því að hún rekist fljótt á veggi. Áfram er þó gerð krafa um nauðsyn og þar með skýran tilgang og meðalhóf, þannig að það er ekki um óheftan aðgang eða óhefta heimild að ræða. (Forseti hringir.) Við sjáum svipað ákvæði, getum við sagt, í samkeppnislögum þar sem stjórnvöldum eru fengnar lagaheimildir af þessu tagi.
(Forseti (ÁsF): Forseti minnir þingmenn og ráðherra á tímann.)