framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og framlagningu málsins. Mér sýnist þetta heilt yfir vera ágætt mál og mikilvægt innlegg í þá viðspyrnu sem Grindvíkingum og Grindavíkurbæ er nauðsynleg. En ég hef svolitlar áhyggjur af því hversu lítil áhersla er lögð á málefni atvinnulífs og fyrirtækja í þessari nálgun sem hér er lögð til. Vissulega stendur í c-lið að stuðla eigi að öflugu atvinnulífi í Grindavíkurbæ, af því að það er auðvitað þannig að án öflugs atvinnulífs er til lítils unnið hvað aðra þætti varðar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé svona ákvörðun og að hugsunin sé þá mögulega að nálgast málefni fyrirtækja á svæðinu með öðru máli eða með öðrum hætti, eða hvort hæstv. ráðherra líti svo á að framkvæmdanefndin hafi og geti hugsanlega fengið ríkara hlutverk hvað málefni fyrirtækja varðar en má kannski lesa með beinum hætti út úr frumvarpinu eins og það liggur fyrir.