framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegur forseti. Eins og fram kom í minni framsögu þá lítur frumvarpið dagsins ljós eftir nokkur samskipti milli sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar annars vegar og innviðaráðuneytis hins vegar að því er varðar þau hlutverk og verkefni sveitarstjórnar sem voru komin inn á það svið að engum sveitarstjórnarmanni gat verið það ljóst við kosningarnar 2022 að þær ákvarðanir eða viðfangsefni kæmu á þeirra borð. Hinum megin snýst þetta í raun og veru um að almannavarnir eru komin með viðfangsefni sem lúta að daglegu amstri, lögnum og pípum og þvíumlíku, og því þurfti að grípa þarna inn í. En varðandi það sem hv. þingmaður talar um og lýtur að atvinnulífinu þá er þessu frumvarpi ekki ætlað að taka utan um allt stórt og smátt sem á dagana drífur í Grindavíkurbæ í framhaldinu. (Forseti hringir.) Að hluta til eru þau álitamál sem hv. þingmaður nefnir fremur á borði fjármálaráðuneytis. Frumvarpið lýtur fyrst og fremst að verkefnum og viðfangsefnum sveitarfélagsins.