154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það blasir við að þetta getur komið víðar við en í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Til að nýta ferðina þá hef ég hef heyrt nokkuð af því að íbúar hafi upplifað að gefinn hafi verið ádráttur um það að stimpilgjöld yrðu felld niður eða afsláttur gefinn af þeim gagnvart endurnýjuðum kaupum. Nú eru á áttunda hundrað, a.m.k. fyrir tveimur vikum síðan, með umsókn í gegnum Þórkötlu og því eru verulegar fjárfestingar íbúa í Grindavík og væntanlega fyrirtækja, mögulega, sem þurfa að flytja sig ef fram heldur sem horfir. Hefur ráðherrann eitthvað skoðað hvort ástæða sé til þess að líta sérstaklega til fjárfestinga Grindvíkinga í þessum efnum, sem ætluðu sér alveg örugglega ekki að standa í íbúðafjárfestingum nú um stundir, og yrði til að mynda þessi framkvæmdanefnd einhvers lags milliliður hvað það varðar að ýta slíkri skoðun áfram, eða yrði slíkt gert í öðrum farvegi en í farvegi framkvæmdanefndarinnar?