154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:24]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þessari nefnd eru falin mjög vandasöm verkefni, m.a. að samræma hlutverk mismunandi stjórnvaldseininga, að gera tillögur um enduruppbyggingu og jafnvel að taka við lögbundnum verkefnum sveitarfélagsins eins og hér hefur verið nefnt. Í ljósi eðlis þessara verkefna þá þótti rétt að kveðið yrði á um það í þessu frumvarpi hér, og enn og aftur algjörlega fordæmalaust, að nefndin yrði sjálfstæð í sínum störfum, þ.e. að hún heyri ekki undir sveitarfélagið en hún heyri heldur ekki undir yfirstjórnarvald ráðherra.

Tillögurnar munu verða unnar í ríku samráði við bæjarstjórn og síðan rýndar af viðkomandi faghópum Stjórnarráðsins og að því loknu mun innviðaráðherra staðfesta áætlanir nefndarinnar. Þótt nefndin verði sjálfstæð í sínum störfum mun endanleg ákvörðun liggja hjá ráðherra þótt hann hafi ekki yfirstjórnarvald. Það er mjög erfitt að sjá allt fyrir í þessu en þetta er tillagan sem lögð er fram á fordæmalausum tímum og ég vonast til (Forseti hringir.) þess að þingið taki þetta til gagnrýninnar skoðunar því að hér hefur ekki verið róið fyrir allar víkur en við höfum af mikilli einlægni kappkostað að útbúa þessa löggjöf eins vel og hægt er fyrir hagsmuni Grindvíkinga.