framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hér á frumvarpi til laga um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Ég tel málið mjög þarft og kannski þá helst til þess að reyna að samræma ákvarðanatöku á færri staði og best væri náttúrlega ef það væri hægt að samræma á einn stað og auka yfirsýnina og upplýsingagjöf um málin. Ríkisstjórnin, undir forystu hæstv. forsætisráðherra, hefur gert vel undanfarið við að auka samhæfinguna, m.a. með skipun á samhæfingarstjóra og reynt að strúktúra fyrirkomulag aðeins betur og svo kemur þetta frumvarp í framhaldinu. En vandamálið sem hefur verið að teiknast upp undanfarið birtist okkur íbúum sem svona viss núllstaða af því að maður veit ekki alveg hvert maður á að sækja upplýsingarnar, hvort verið sé að taka á málunum og þá hvernig, hver beri ábyrgð á því að tekið séð á málunum og hvort einn sé að bíða eftir öðrum þannig að hvorugur geri nokkuð.
Svona virðist þetta vera í þessu stóra og mjög svo fjölbreytta verkefni og það hefur verið mikill skortur á yfirsýn yfir verkefnið og svo í framhaldinu skortur á ákvarðanatöku. Samt sem áður hafa margar stórar ákvarðanir verið teknar og góðar og margt mjög gott gerst og margt gott að gerast og ber að þakka fyrir það. Það hefur verið unnið fumlaust við uppbyggingu varnargarða og -verja. Það hefur gengið vel að koma öllum helstu innviðum í lag sem bráðabirgðalausn og verið gert vel með stofnun Þórkötlu og ákvörðun um uppkaupin og svo er verið að bíða eftir framkvæmdinni þar. Þetta er orðið svolítið víða þar sem er verið að bíða eftir lausnum, hvort sem það er fyrir íbúana eða atvinnulífið, hvort sem það eru búsetumálin, fjármálin, lögheimilismálin, skólamálin, íþróttamálin, félagslegu málin, lögheimilin og lengi mætti telja, aðgengi að eignum, aðgengi að bænum sínum, aðgengi fyrir aðra, viðskiptavini, fyrirtæki og annað slíkt. Svona er lengi hægt að halda áfram. Svo er það kannski oft að gerast að ein ríkisstofnun er að bíða eftir annarri eða ein ríkisstofnun að endurskoða ákvarðanir annarrar og svo þekkjum við náttúrlega alltaf deiluna um hver eigi að borga.
Það sem ég er að segja hér er að þessu frumvarpi fylgja náttúrlega miklar væntingar um að það komi aukin yfirsýn og það komi einhverjar ákvarðanir sem ýta okkur út úr þeirri núllstöðu sem mörg verkefni virðast vera í. Það þarf að taka einhverja forgangsröðun og hún snýst þá svolítið um það sem kemur fram hér um markmið laganna. Miðað við markmið laganna er þetta svolítið stór nefnd sem á að taka á mörgu. Þetta er mjög opið; að tryggja skilvirka og hagkvæma úrlausn verkefna vegna jarðhræringanna. Þau eru mörg og þau virðast öll vera undir miðað við þetta markmið. Og svo hlúa að íbúum Grindavíkurbæjar og stuðla að farsæld þeirra til framtíðar. Það hefur verið gert að mörgu leyti en aðrir hópar hafa kannski setið eftir, ekki að það hafi verið viljandi gert heldur var enginn sem einhvern veginn vissi að hann bæri ábyrgð á boltanum. Vonandi teiknast það allt saman á einn stað.
Svo kemur c-liðurinn, að stuðla að öflugu atvinnulífi í Grindavíkurbæ, og þar vil ég aðeins staldra við. Það skiptir gríðarlegu máli af því að hér er sókn langbesta vörnin. Þessar jarðhræringar hafa kostað samfélagið og íbúa Grindavíkur gríðarlega en ekki síst íslenskt samfélag og ríkissjóð. Grindavík var og er enn eitt öflugasta atvinnusvæði Íslands í verðmætasköpun og ef við höldum rétt á spöðunum, forgangsröðum verkefnunum og förum í að taka ákvarðanir um uppbyggingu á veitukerfum, gatnakerfum og öðrum innviðum sem atvinnulífið þarf á að halda, þá held ég að Grindavík sem atvinnusvæði haldi áfram að skapa verðmæti fyrir íslenskt velferðarsamfélag og þannig sé hægt að draga úr því tjóni sem náttúran er að valda okkur þarna. Það er eitthvað lengra í það að við getum farið að byggja upp innviði þannig að það verði almenn búseta bænum þótt einhver búseta og starfsemi muni alltaf geta verið, og þá held ég að við þurfum að nálgast þetta verkefni sem er fram undan núna með því að setja fókusinn á að byggja það sem er raunhæft upp og það er það atvinnulíf sem er starfandi núna. Svona fljótt reiknað tel ég að þau fyrirtæki sem eru starfandi Grindavík núna séu með yfir 1.500 manns á launaskrá, sem er ekkert lítið, þannig að ef það er hægt að verja slíkt atvinnulíf og halda þeirri starfsemi án þess að fara í kostnaðarsama flutninga eða endurskipulagningu á því þá held ég að það sé til mikils að vinna. En þá þarf sveitarfélagið og núna ríkið að taka ákvörðun um vissa skipulagsþætti og svo framkvæmdaþætti, um hvaða götur eigi að byggja upp fyrst, hvaða innviði eigi að laga fyrst og eigum við að nota peningana í að loka bæinn af eða eigum við að nota peningana í að byggja hann upp og gera aðgengi að honum greiðara svo að atvinnulífið — lokunarpóstarnir virka bara eins og fjöldatakmarkanir í Covid núna. Þetta er bara það sama. Og hvernig ætlum við að bæta fyrirtækjunum það upp sem vilja bjarga sér, vilja lifa áfram og hafa ekki fengið nein önnur úrræði?
Þegar við komumst einhvern veginn saman hér að niðurstöðu, sveitarfélagið og stjórnvöld, þá hlýtur þetta að vera eitt af stóru þáttunum sem þarf að taka ákvörðun um, ég sé ekki hvar hún er tekin annars staðar en á svona samráðsvettvangi af því að það þarf að taka ákvörðun um hvar sé skynsamlegast að byrja og hvernig eigi að fjármagna það, því að þetta snýst svolítið um kostnaðinn: Hver er ávinningurinn af þeim kostnaði sem við förum í og hvernig á þá að fjármagna það? Ég vil líka að við pössum okkur á því að þó að náttúran hafi leikið okkur grátt þarna þá er ekki ástandið í Grindavík alslæmt, bara alls ekki. Það eru bara mörg svæði sem eru í lagi, það er mikið atvinnulíf sem getur starfað áfram og virkað eðlilega. Ég hef oft sagt að það eru margar aðstæður á atvinnusvæðinu Grindavík sem eru mun betri í Grindavík en víðs vegar annars staðar á landinu. Ef við tölum bara um samgöngur, nálægð við helstu öryggisinnviði eins og lögreglu, heilbrigðisþjónustu, almenna verslun og þjónustu, íbúabyggð og annað slíkt. Aðstæðurnar eru ekki alslæmar þannig að ég held að við þurfum að hætta að horfa á þetta sem almannavarnaástand, þó að þarna séu enn þá jarðhræringar og óvissa í gangi, af því að ef við ætlum að búa á Íslandi yfir höfuð, ef við ætlum að nýta auðlindirnar okkar, ef við ætlum að starfa á Íslandi með ferðaþjónustu bara sem dæmi, þá munum við alltaf þurfa að bera virðingu fyrir náttúrunni og aðlaga okkur að henni. Það er bara fullt af atvinnusvæðum á landinu sem búa við rauðar veðurviðvaranir, snjóflóðahættu, skriðufallahættu og margt annað. Það er umferðin líka og það ástand sem skapast á vegum Suðurlands. Það má líkja því oft við almannavarnaástand. Þar látast fleiri en hafa gert í þessu ástandi, þó að við viljum gera allt til að tryggja öryggi allra og það hefur verið gert vel. Það hafa verið gerðar öryggisáætlanir og annað slíkt. Þannig að hvað þetta varðar þá segi ég: Við verðum líka að vera raunsæ á þær aðstæður sem við búum við og lifa með þeim.
Ég tel þetta vera skref í því, að stofna þessa nefnd, að stíga út úr því að vera með almannavarnaástand yfir í það hvernig við ætlum að lifa með þessu. Þá þurfum við að setja fókusinn á atvinnulífið til að þetta verkefni verði framkvæmanlegra og yfirstíganlegra, sérstaklega í kostnaði, og fækka þá verkefnunum sem ríkisvaldið þarf að bregðast við út af félagslegum málum. Þetta getur verið stórt félagslegt mál og það hefur áhrif á afdrif íbúanna hvernig fyrirtækin þeirra ganga og hvernig atvinnulífið fer af stað því að þetta eru störf margra íbúa, þetta er lífeyrir marga íbúa í fyrirtækjunum og bara lífshættir og annað og hefur áhrif á það hvernig þeim gengur að festa sér núllpunkt annars staðar og annað slíkt. Þannig að þetta er mikilvægt í því að ná öllum öðrum markmiðum þessa frumvarps.
Eins og hefur komið hér fram er Þórkatla stóra verkefnið og er svolítið litið þannig á að það sé búið að gera vel við Grindavík með stofnun Þórkötlu, sem er rétt. En eftir sitja enn þá viðkvæmu hóparnir sem áttu ekki sitt eigið húsnæði eða hafa bara ekki þrek eða stuðning í því að sýsla með rafræn skilríki; það er allt rafrænt og allar upplýsingar á netinu og svo fást ekki upplýsingarnar, það þarf að fara inn á fasteignamarkað, bjarga verðmætum sínum, koma sér í eitthvert annað húsnæði á meðan verið er að kaupa hitt. Viðkvæmir hópar hafa ekki þrek eftir það sem á undan er gengið til að gera það og þetta þarf virkilega að taka utan um í þessu.
Svo var komið aðeins inn á það áðan að einar af stóru áhyggjunum núna er einmitt sá kostnaður sem hlýst af því að skipta um húsnæði, stimpilgjöld upp á fleiri hundruð þúsund, á meðan er beðið eftir Þórkötlu er algengur vaxtakostnaður eða fjármagnskostnaður yfir milljón á hvert heimili. Þarna ertu kominn í kannski hátt í 2 milljónir bara í vaxtakostnað og stimpilgjöld við það að skipta um húsnæði sem þú vildir ekki. Og ef þú leggur ekki út í þennan vaxtakostnað með brúarlánum missir þú kannski af kaupsamningnum þínum og þá er húsnæðið búið að hækka um einhverjar fleiri milljónir á meðan. Ég held að það verði ein áskorunin: Hvar eru mörkin á hlutverkum þessarar nefndar? Væntingarnar eru miklar um að það sé einn staður sem gefur upplýsingarnar, tekur ákvarðanir og tryggi það og hvar er það betra en þar sem stjórnvöld og sveitarfélög koma saman? Ég held að við verðum að hafa það svolítið uppi.
Ég tek undir með hæstv. ráðherra að samráðið við Alþingi skipti miklu máli en upplýsingagjöf til Alþingis skiptir líka gríðarlega miklu máli. Mér finnst Alþingi hingað til svolítið hafa fengið bara sömu upplýsingar og eru í fjölmiðlum sem hafa mest verið um eitthvert landris og eldgos og eitthvað sem ég er löngu hættur að pæla í. Það er hverjar verða afleiðingarnar verða á vígvellinum, eins og er sagt, fyrir fólkið og hvernig við ætlum að vinna úr því en ekki hvort sprengjan springi aftur. Við þurfum að fá meiri upplýsingar um þetta. Og varðandi þetta þá þurfum við hér á Alþingi og sérstaklega fólkið í framkvæmdanefndinni sem kemur að þessu að upplifa þetta raunverulega: Hverjar eru aðstæðurnar í Grindavík, hverjar eru aðstæðurnar hjá fólkinu sjálfu? Þá held ég að það skipti miklu máli að nefndin starfi sem næst samfélaginu í Grindavík, bæði í Grindavík sjálfri, til að vita hverjar raunverulegu aðstæðurnar eru þar á innviðum, hvernig atvinnulífinu gengur, hvað margir búa þar, hvað fólkið sem er þar er að segja, en líka einhvern veginn að reyna að nálgast hinn almenna borgara sem er að takast á við verkefnin. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að vera á vettvanginum sjálfum og hitta fólkið sem er að takast á við þetta þannig að það skiptir miklu máli að þessi framkvæmdanefnd verði ekki staðsett hérna í 101 þar sem eru ekki margir Grindvíkingar á ferli og vettvangurinn sjálfur er ekki fyrir sjónum fólks. Ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli, staðsetningin, og ég hvet þingheim allan og stjórnvöld sem koma að þessu til að fara reglulega til Grindavíkur og upplifa hvernig ástandið er þar og hvernig lífið gengur fyrir sig þar. Sjálfur get ég sagt að í hvert sinn sem ég kem hérna til Grindavíkur þá fyllist ég bjartsýni og verð rólegri, þó að afleiðingarnar séu miklar.
Ég hlakka bara til að fjalla um þetta frumvarp og sjá það verða að veruleika og treysti mikið á þessar framkvæmdanefnd. Því mun skipun hennar skipta miklu máli, að það sé reynslumikið fólk sem hefur staðið í framkvæmdum og uppbyggingu og tekið þátt í að byggja upp og takast á við svona stór verkefni. Það þarf uppbyggingu, sérstaklega innviða, til að atvinnulífið geti gengi vel og svo þessa yfirsýn. Ég segi bara að væntingarnar eru miklar og því skiptir miklu máli að þetta komi hratt af því að óvissan er mikil og það þarf að minnka óvissuna, en það skiptir líka miklu máli að vel takist til og það sé framkvæmt miðað við aðstæður.