154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er um mikilvægt frumvarp að ræða, frumvarp til laga um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Ég ætlaði upphaflega að fara í andsvar við hæstv. ráðherra en mig langar í ræðu að vekja athygli á einu máli a.m.k. Það er varðandi skipun nefndarinnar. Fram kemur í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Ákvæði stjórnsýslulaga gilda ekki um undirbúning og töku ákvarðana ráðherra um skipun framkvæmdanefndar.“

Raunverulega veltir maður fyrir sér: Af hverju er verið að taka úr sambandi ákvæði stjórnsýslulaga þannig að þau gildi ekki um undirbúning og töku ákvarðana ráðherranna um skipan framkvæmdanefndarinnar og af hverju er sú leið farin að hæfisreglur og efnisreglur stjórnsýslulaga gildi ekki hér varðandi skipun nefndarmannanna? Eina réttlætingin sem raunverulega kemur fram í frumvarpinu er að það segir að koma eigi nefndinni á fót sem fyrst. Það eru engar skýringar við þessa málsgrein í greinargerðinni og það væri æskilegra að skýring myndi fylgja slíkri yfirgripsmikilli breytingu. Verið er að taka úr sambandi gríðarlega mikilvægan lagabálk, stjórnsýslulögin. Ég get ekki séð annað, eins og kom fram í máli ráðherra áðan, en að hér sé um fjölskipað stjórnvald að ræða og ég sé ekki réttlætinguna fyrir því hvers vegna verið er að taka úr gildi stjórnsýslulögin. Ég sé hana ekki, svo það komi fram.

Það er gengið út frá því að þóknun nefndarmanna og skrifstofu- og húsnæðiskostnaður greiðist allur af ríkinu. Líka geri ég a.m.k. miklar athugasemdir við þetta módel sem er verið að setja þarna á laggirnar. Að sjálfsögðu er mikilvægt að við styðjum við bakið á Grindvíkingum en hérna er fyrst og fremst verið að búa til ákveðið módel varðandi ákvarðanatöku vegna jarðhræringa. Hvað er gert? Jú, það á að skipa nefnd, þriggja manna nefnd þar sem tveir eru tilnefndir af innviðaráðherra og einn af ráðherra menntamála. Svo er það bara búið. Og ráðherrann tilnefnir formann, auk þess að kveða á um laun nefndarmanna.

Í kafla 2.5., Alþjóðleg reynsla, er vitnað í alþjóðlegan samanburð varðandi Nýja-Sjáland. Þar var sérstök nefnd skipuð vegna jarðskjálftanna á Canterbury-svæðinu 2010 með framkvæmdastjóra sveitarfélaganna. Þar þótti það fyrirkomulag ekki nægilega skilvirkt og óvissa var um ákvarðanatöku og ljóst þótti að þörf var á viðameiri aðstoð ríkisaðila. Ég vona að ráðherrann taki þetta til greina þegar nefndin er skipuð. Þetta ætti að vera stærri nefnd að mínu mati, fimm manna, og það ættu a.m.k. að vera tveir fulltrúar frá bæjarstjórn Grindavíkur. Þetta væri sameiginleg nefnd ríkisvaldsins og sveitarfélagsins Grindavíkur. Þannig nefnd á að sjá um þessi mál. Kjörnir fulltrúar frá Grindavíkurbæ yrðu í þessari nefnd og væru í samráði við fulltrúa ráðherranna til að taka ákvarðanir sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Það tel ég vera hina eðlilegu og lýðræðislegu leið. Það sem er raunverulega verið að gera hérna er að framkvæmdanefndin er að taka yfir verkefni sveitarfélagsins. Ég get ekki lesið 3. gr., um verkefni framkvæmdanefndar, öðruvísi en að framkvæmdanefndin sé að taka yfir gríðarlega mikilvæg verkefni sem eru á könnu sveitarfélagsins. Það er ekki hægt að gera það bara með þessu frumvarpi án þess að fulltrúar íbúanna sjálfra séu í framkvæmdanefndinni. Það þarf að kveða á um það í lögunum, ekki bara að innviðaráðherra skipi tvo og að ráðherra menntamála skipi einn.

Það er áhugavert að einn skuli skipaður af ráðherra menntamála. Það segir í greinargerð með frumvarpinu, í undirkafla 2.4, að sveitarstjórn fari t.d. enn með ábyrgð á verkefnum samkvæmt lögum um grunnskóla, lögum um leikskóla, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir o.s.frv. Af hverju á ráðherra menntamála að skipa í nefndina þegar sveitarstjórnin fer áfram með ábyrgð samkvæmt lögunum? Hins vegar á nefndin að sjá um samþætta þjónustu við íbúa Grindavíkurbæjar þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu o.s.frv., og svo get ég talið upp það sem stendur í 3. gr.: þjónustumiðstöð; gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavík; framkvæmd nauðsynlegra viðgerða; könnun á jarðvegi; viðgerðir á götum o.s.frv. Svo kemur nokkuð mjög áhugavert í 4. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela framkvæmdanefnd ábyrgð á lögbundnum og ólögbundnum verkefnum sveitarfélagsins að hluta til eða í heild, að undanskildum þeim verkefnum sem mælt er fyrir um í 58. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Um hvað fjallar 58. gr. sveitarstjórnarlaganna, sem er undanþegin? Hún fjallar bara um fjárstjórnarvaldið; staðfestingu ársreiknings, fjárhagsáætlanir o.s.frv. Utanumhald um fjárlög eða ársreikning sveitarfélagsins er það eina sem er undanskilið. Þannig að sveitarstjórnin getur samþykkt að fela þessari framkvæmdanefnd, sem er skipuð þremur einstaklingum frá ráðherrunum, öll verkefni sveitarfélagsins. Þetta finnst mér ekki nægilega gott og ég tel að þetta módel sé ekki nægilega gott. Það er nánast verið að segja í frumvarpinu, að hluta til, að þriggja manna nefnd taki við verkefnum sveitarfélagsins og í öðru lagi að sveitarstjórn Grindavíkurbæjar geti falið framkvæmdanefndinni að taka við lögbundnum og ólögbundnum verkefnum sveitarfélagsins. Þetta getur allt farið til framkvæmdanefndarinnar og það finnst mér ekki nægilega gott, að miðstjórnarvaldið taki við þessum verkefnum án þess að kjörnir fulltrúar frá Grindavíkurbæ séu í nefndinni. Þetta á að vera samstarfsverkefni ríkisins og sveitarfélagsins, samstarfsverkefni miðstjórnarvaldsins og sveitarstjórnarvaldsins. Það finnst mér ekki nægilega skýrt. Ég sé það í greinargerðinni að verið er að horfa til Nýja-Sjálands og ég get ekki séð annað en að þessi reynsla þeirra eigi ekkert endilega að vera lærdómur fyrir okkur. Ég heyrði síðast í morgun á nefndarfundi að við værum svo fljót að taka ákvarðanir á Íslandi, bregðast skjótt við og annað slíkt. Það er mjög gott, en breytir því ekki að við eigum að hafa sameiginlega nefnd sveitarfélagsins og ríkisvaldsins. Eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Mikilvægt sé þó að læra af reynslunni og þeim áskorunum sem samfélagið hafi þurft að kljást við. Þá eru raktar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við endurreisn samfélagsins á Canterbury-svæðinu …“

Það virðist vera að við séum að læra af Nýsjálendingum, en framkvæmdastjórar sveitarfélaga voru í nefndinni þar. Ég tel að við ættum einmitt að hafa þá í þessari nefnd, þó að meiri hlutinn eigi að vera frá ríkisvaldinu. Ég held því að þetta módel — ef við horfum bara á þetta út frá skipulagslegu atriði varðandi verkaskiptingu og hvernig við horfum á skipuritið þá finnst mér skipun nefndarinnar ekki vera nægilega ígrunduð þegar fulltrúar sveitarfélagsins eru ekki með. Að sjálfsögðu eiga að vera lýðræðislega kjörnir fulltrúar þar. Sveitarfélagið Grindavík gæti einfaldlega tilnefnt bæjarstjórann eða forseta bæjarstjórnar í þessa nefnd og þá væru a.m.k. komnir tveir fulltrúar. Þetta er alla vega eitthvað sem þingnefndin ætti að fjalla um og skoða gaumgæfilega vegna þess að þetta er kjarnamálefni í þessu frumvarpi að mínu mati, fyrir utan að sjálfsögðu efnisleg atriði sem koma fram í 3. og 4. gr.

Ég held að við getum lent í miklum ógöngum til lengri tíma litið þegar kemur að því að endurreisa Grindavík, þegar bæjarfélagið tekur aftur við þeim verkefnum sem eru búin að vera hjá framkvæmdanefndinni. Þetta eru gríðarleg völd sem framkvæmdanefndin hefur og það er furðulegt að ekki sé farið að stjórnsýslulögum við undirbúning og töku ákvarðana ráðherranna um skipun í nefndina.

Annað atriði sem mig langar að benda hér á varðar 5. gr., um framkvæmd verkefna. Það eru gerðir samningar við sveitarfélögin og svo er einfaldlega sagt: Öll verkefni framkvæmdanefndar eru kæranleg til æðra stjórnvalds, líkt og sveitarfélags raunverulega. Maður sér það alveg klárlega þegar maður les 5. gr. líka.

Varðandi 6. gr., um heimild til að kalla eftir gögnum, þá spurði hv. þm. Andrés Ingi Jónsson um skort á vísun í persónuverndarlög. Það vantar algerlega tilvísun til persónuverndarlaga í 6. gr. og líka í greinargerðinni. Vissulega er vísað í það að gerð er krafa um nauðsyn og skýran tilgang og að meðalhófs sé gætt þegar gögnin eru fengin. En svo er tekið dæmi úr samkeppnislögum, 19. gr. samkeppnislaga. Ég tel að skýra tilvísun hefði þurft til persónuverndarlaga og að þeim verði fylgt í hvívetna, en vissulega er hægt að gefa lagaheimild fyrir að vinnsla gagnanna og upplýsinganna verði líka hjá nefndinni. Ég efast ekki um að það verði gert í framkvæmd. Ég held að þetta sé mikilvæg löggjöf en það er fyrst og fremst skipuritið sem vekur athygli mína og líka þessi undanþága frá lögunum.