154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja að heilt á litið held ég að hér sé ágætismál á ferðinni og það er ánægjulegt að það hefur verið undirbúið í góðu samráði við bæjarstjórn Grindavíkurbæjar. Ég held að þetta sé, vonandi, líklegt til þess að verða það verkfæri sem ýtir þeim málum sem undir þetta regluverk falla áfram og í sem bestan farveg.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra áðan, áhyggjur mínar af því að atvinnulífið í Grindavík sé enn teymt nokkuð lengi á svörum og auðvitað með það í huga að það er hætt við því að án þess að öflugt atvinnulíf þrífist í bæjarfélaginu þá sé til lítils unnið með allt hitt, ef atvinnulífið fær ekki að nýta getu sína til að búa til verðmæti og skapa störf. Hæstv. ráðherra kom hér inn á aðgerðir sem gripið hefur verið til á fyrri stigum, m.a. nefndi hæstv. ráðherra húsnæðisstuðning og tímabundinn stuðning vegna greiðslu launa. Það sem ég hef skoðað í tengslum við það tiltekna mál, tímabundinn stuðning vegna greiðslu launa, má segja að sé í meginatriðum Covid-aðgerð sem er verið að endurnýta og ég held að það hafi ekki endilega verið klók nálgun. Þetta eru annars konar aðstæður sem þarna eru uppi og það skiptir máli að reyna að hafa innbyggða hvata í þessar lausnir sem gera fyrirtækjunum það eins auðvelt og nokkur kostur er að skapa verðmæti þannig að það sé hægt að nýta starfsfólkið sem stutt er við þótt tímabundið sé og kúnnunum, ef svo má segja, kippt úr sambandi gagnvart tekjustreymi viðkomandi rekstrar.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að sum mál þyrfti að leysa maður á mann. Mér þótti þetta ágætlega orðað hjá ráðherranum en þarna er auðvitað sagt í samhengi við einstaklinga og fjölskyldur og þau mál sem kunna að koma upp og við þekkjum og höfum heyrt af svo mörgu, að það er fólk sem er að falla milli skips og bryggju varðandi þær lausnir sem þegar hafa verið innleiddar. En ég held að þetta sé atriði sem mætti alveg leyfa sér að ramma inn með einhverjum hætti gagnvart fyrirtækjum og rekstri sem stundaður hefur verið í Grindavík því að mismunandi rekstur kallar auðvitað á mismunandi lausnir svo að bæði sé farið sem best með skattfé almennings og að stuðningurinn verði að sem mestu gagni fyrir bæði fyrirtæki og þá starfsmenn sem þar starfa.

Ég kom aðeins inn á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra hvert hlutverk framkvæmdanefndarinnar eigi að vera gagnvart atvinnulífinu. Ég skildi svar hæstv. ráðherra sem svo að það væri réttilega meira á könnu fjármálaráðherra heldur en hæstv. innviðaráðherra. Ég vil bara svona kasta því hér inn og vona að það verði skoðað af fullri alvöru að það verði settur upp einhver mekanismi, eitthvert verkfæri, samræðuvettvangur eða hvað við köllum það, þar sem fyrirtækin geti með skipulagðari hætti og meira afgerandi kallað fram svör við spurningum og ákvarðanir sem helst á þeim hvíla sem þar standa í rekstri.

Ég kom inn á sömuleiðis, og vil aðeins hnykkja á því atriði hér sem mér finnst skipta máli að verði skoðað í þaula, og aftur á kannski á meira heima í ráðuneyti fjármála en sveitarstjórnarmála, og það er það sem snýr að stimpilgjöldunum. Það var tekin ákvörðun um að stimpilgjöld yrðu felld niður af uppkaupum Þórkötlu á eignum í bænum. Ég er nú ekki með nýjustu tölur en ég sá 24. apríl, fyrir tveimur vikum síðan, að þá voru komnar 732 umsóknir þannig að þeim hefur væntanlega fjölgað eitthvað síðan þá. En það eru svona rétt um tveir þriðju sem þarna strax eru komnir inn með umsóknir um uppkaup á viðkomandi eignum, viðkomandi íbúðarhúsnæði. En bara ef við reiknum með að þessir 700–800 finni sig í þeirri stöðu að vera festa sér eign annars staðar vegna þeirrar stöðu sem uppi er og horfum á algengt meðalverð íbúðarhúsnæðis þá hallar nærri að þarna sé hálfur milljarður, alla vega nærri að það séu 500 milljónir sem íbúar í Grindavík eru þá að greiða í stimpilgjald vegna viðskipta sem þeir höfðu engan áhuga á að standa í, eru nauðbeygðir til að ganga til. Ég held því að það væri ástæða til að skoða þetta og vil í rauninni hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að koma fram með a.m.k. skoðun í þessa veru og mögulega þingmál. Þetta eru alvörutölur sem ríkissjóður gat ekki gert ráð fyrir að væru að koma frá þessum hluta landsmanna og þessi hluti landsmanna sem fjárfestir á grundvelli þess að þurfa að yfirgefa Grindavík ætlaði sér í fæstum tilvikum að standa í íbúðafjárfestingum annars staðar nú um stundir. Ef þarna er hálfur milljarður sem fer í ríkiskassann frá íbúum í Grindavík vegna þessa þá er eftir að horfa til þess sem gerist hjá fyrirtækjum sem á einhverjum tímapunkti neyðast til þess að flytja starfsemi sína til að viðhalda henni verði ekki forsendur til að gera það í núverandi húsnæði í Grindavík.

Þetta er það sem mig langaði til að nefna hér við þessa 1. umræðu og ég bara vona að hv. umhverfis- og samgöngunefnd vinni þetta mál hratt og vel og það verði gagn af, því að það er gríðarlega mikilvægt. Þeir bæjarfulltrúar sem völdust til starfa í bæjarstjórn Grindavíkur við síðustu sveitarstjórnarkosningar hafa sannarlega ekki verið öfundsverðir af þeim verkefnum sem þeir hafa fengið í fangið en ég lít svo á að hér sé verið að undirbyggja stuðningsverkfæri þannig að þessar ótrúlegu aðstæður sem þarna eru uppi verði ekki á herðum þess fámenna hóps sem bæjarstjórnina skipa og átti í raun enga möguleika á að sjá fyrir að þetta yrði á verkefnalista næstu ára þegar hann gaf kost á sér til þeirra mikilvægu starfa.

Ég óska nefndinni velfarnaðar með þetta mál og hef lagt inn í púkkið það sem ég tel að sé mikilvægt gagnvart því að fjármálaráðherra stígi inn í ákveðna þætti málsins er varða atvinnulífið og sjónarmið er varða stimpilgjaldið. Ég er ekki með neinar sérstakar tillögur á þessum tímapunkti varðandi breytingu á þessu tiltekna máli. Mér sýnist þetta vera ágætlega innrammað hvað aðgerðir er snúa að málefnasviði sveitarstjórnaráðherrans og hæstv. innviðaráðherra varða og að þetta geti örugglega orðið til gagns og ég vona að þetta fari hratt og vel í gegnum þingið.