154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

772. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. velfn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Með þessu frumvarpi er lagt til að við 8. gr. laganna bætist reglugerðarheimild til handa ráðherra til að kveða á um stoðþjónustu, svo sem um aðstoðarmannakort fyrir fatlað fólk og fæðisfé starfsfólks sem matast með notanda í störfum sínum.

Með 2. gr. frumvarpsins er svo lögð til sú breyting á 40. gr. laganna að við bætist heimild til að setja reglugerðir um framkvæmd þjónustu er varðar stuðningsfjölskyldur, frístundaþjónustu, styrkveitingar og um framkvæmd stoðþjónustu.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknu jafnrétti í þjónustu við fatlað fólk. Nefndin telur mikilvægt að ráðherra fái þær heimildir til að setja reglugerðir sem kveðið er á um í frumvarpinu með það fyrir augum að tryggja jafnræði fatlaðs fólks og ófatlaðs óháð búsetu eða þjónustuformi. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Það má kannski bæta því við að umsagnir um málið má auðvitað finna undir því en þær voru jákvæðar og hvöttu til samþykktar þess.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn velferðarnefndar: Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson. Þá var Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, samþykkur álitinu.

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem lætur kannski ekki svo mikið yfir sér en er til þess fallið að auka þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og greiða fyrir henni. Ég vona að sá þverpólitíski vilji til samþykktar þess sem birtist í þessu nefndaráliti eigi eftir að skila sér með því að við samþykkjum þetta mál hér í þingsal innan skamms.