154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[17:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og starfsfólki hennar fyrir mjög ítarlega og upplýsandi skýrslu. Ég hvet sem flesta til að skoða hana og kynnast því mikilvæga starfi sem er unnið innan utanríkisráðuneytisins. Ég held að það sé mikilvægt að bæði þingmenn og þjóð fái þessa góðu innsýn vegna þess að oft er litið á utanríkisþjónustuna sem eitthvert svona punt á erlendum vettvangi. Þarna séum við að borga stórfé fyrir að hafa einhverja búandi í einhverjum flottum sendiráðsbústöðum og taka þátt í einhverjum veislum á erlendri grundu eða eitthvað. En sannleikurinn er sá að þetta starfsfólk vinnur mikla og mikilvæga vinnu sem lestur þessarar skýrslu, sem er nú alveg sæmilega löng, hún er alveg um 150 síður, veitir mjög fræðandi og góðan skilning á hvað raunverulega er að gerast innan utanríkisþjónustunnar. Sem þjóð sem byggir tilveru sína á að alþjóðleg lög og mannréttindi séu virt er fátt mikilvægara en að sýna það í verki sem þjóð að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi ríkja. Þar þurfum við að vera öflug rödd þeirra grunngilda sem við byggjum okkar eigið samfélag á. Þetta á sérstaklega við á tímum eins og þeim sem við lifum á núna þar sem stríð, hungursneyð og afleiðingar loftslagsbreytinga hafa sívaxandi áhrif á líf fólks um allan heim.

Í umræðunni hér heima er t.d. oft fólk sem er að flýja þessi lönd, hælisleitendur. Við megum ekki gleyma því að með því að gera líf þeirra betra þar sem þau búa drögum við úr fjölda þeirra sem leita annað. En sendiráð og sendiskrifstofur Íslands og útsent starfsfólk sem vinnur í þeim er ekki eingöngu að tryggja að rödd mannréttinda, jafnréttis og alþjóðlegra laga heyrist heldur vinnur það líka við öfluga hagsmunavörslu fyrir okkur öll. Það þýðir ekki mikið fyrir okkur hér á þingi eða þjóð að kvarta yfir einhverjum erlendum reglum eða tilskipunum ef við erum ekki tilbúin að veita nægt fjármagn til þess að tryggja þessa hagsmunagæslu á þeim vettvangi þar sem þær verða til.

Sendiráðin gegna líka lykilhlutverki þegar kemur að því að veita Íslendingum á erlendri grund aðstoð þegar neyðin knýr að dyrum, hvort sem það felst í því að flytja fólk af hættusvæðum eða aðstoða með týnd vegabréf. Þarna gegna líka 206 ræðismenn sem starfa sem sjálfboðaliðar mikilvægu hlutverki sem vert er að þakka fyrir. Ég, ásamt fjölda annarra þingmanna, hef lagt fram þingsályktun þess efnis að opnuð verði sendiskrifstofa Íslands á Spáni til að efla samskipti landanna og stuðning við Íslendinga í landinu, en Spánn er fjórða fjölmennasta ríki Evrópusambandsins og þungavigtarríki í öllu starfi sambandsins. Ísland er eina Atlantshafsbandalagsríkið sem ekki heldur úti sendiskrifstofu á Spáni, en það er, eins og áður sagði, lykilríki innan Atlantshafsbandalagsins.

Talið er að um 3.500 Íslendingar eigi fasta búsetu á Spáni en mörg þúsund, ef ekki tugir þúsunda, dvelja þar enn fremur tímabundið um lengri eða skemmri tíma sem ferðamenn og dvalargestir árið um kring. Spánn er einn helsti áfangastaður íslenskra ferðamanna og er sérstaklega vinsæll staður fyrir fólk sem komið er yfir miðjan aldur. Það dvelur þar oft veturlangt. Íslendingar eiga um 4.000 fasteignir á Alicante- og Murcia-svæðinu og um 1.500 þeirra eru búsett á því svæði en um 1.000 manns á Kanaríeyjum. Það er gríðarlega mikið álag á kjörræðismönnum Íslands á Spáni vegna verkefna sem veita þessum hópi margvíslega aðstoð. Það var ánægjulegt að sjá í fréttum í dag að hæstv. utanríkisráðherra er í samtali við fjárlaganefnd um að veita fjármagn til þessa mikilvæga verkefnis. Það er nefnilega algerlega óásættanlegt að allir þeir Íslendingar sem þarna búa eða dvelja um skemmri eða lengri tíma njóti ekki fullrar þjónustu eins og þar sem íslensk sendiráð eða sendiskrifstofur eru til staðar. Mig langar sérstaklega að hvetja ráðuneytið og hæstv. ráðherra til að skoða það hvort hægt sé að byrja með sendiskrifstofu íslensks sendiráðs, en það er nákvæmlega sú leið sem Spánverjar fóru, og þar með kannski draga aðeins úr kostnaðinum og milda hræðsluna innan fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins og vinna þannig í því að tryggja það að við fáum þarna þá þjónustu sem fólk þarf á að halda.

Skýrslan fer einnig vel í gegnum hið góða starf sem unnið er í tengslum við þróunarsamvinnu. Það var sérstaklega ánægjulegt að lesa að miðað við bráðabirgðatölur fyrir 2023 þá tókst okkur að veita meiri þróunaraðstoð en við ætluðum okkur, þ.e. 0,36% af þjóðarframleiðslu en ekki 0,35%. Ég veit að menn eru ekki alltaf ánægðir þegar farið er fram úr en þarna er vert að fagna. Ég held að þetta sé gott veganesti fyrir þá áætlun um hækkun á stuðningi sem kynnt var í nýsamþykktri þróunarsamvinnustefnu en þar er miðað við að þessi tala fari upp í 0,42% á næstu fimm árum. Sú góða þróunarsamvinnustefna hefur verið rædd vel hér á þingi og er óþarfi að ítreka margt sem þar kom fram. En mig langar samt að byrja á því að benda á að í kaflanum um þróunarsamvinnu, sem byrjar á bls. 72, er mjög ítarleg og góð yfirsýn yfir öll þau verkefni sem við erum að vinna í samstarfslöndunum og það sem við erum að vinna í samvinnu við alþjóðastofnanir og félagasamtök. Mig langar að hvetja fólk til að kynna sér þann hluta skýrslunnar jafnvel þó að það sleppi öllum hinum köflunum.

Mig langar líka að hvetja hæstv. ráðherra til að víkka út tækifærin til þess að senda íslenska sérfræðinga á sviði mannúðarmála til starfa hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Við gerum þetta í dag, t.d. í gegnum Alþjóðabankann, í tengslum við jarðhitasérfræðinga, en málið er að við höfum mjög mikið af reynslumiklu fólki á sviði mannúðarmála, flest uppalið í björgunarsveitunum eða Rauða krossinum, sem myndi ekki einungis nýtast vel í þessi störf og á alþjóðlegum vettvangi heldur myndi sú reynsla og þekking nýtast mjög vel inn í okkar eigið starf hér á landi. Ég veit að þetta hefur verið gert að einhverju marki en ég held að það séu möguleikar til að gera enn meira og er ég tilbúinn að ræða það við ráðuneytið hvenær sem er.

Þegar við lítum svo yfir svið alþjóðamála eins og þau birtast í nýjustu skýrslu utanríkisráðherra er ljóst að við stöndum á tímamótum, á tímum þegar heimurinn stendur frammi fyrir ógnum sem ekki þekkja landamæri, allt frá loftslagsbreytingum til stríðsátaka. Þá er mikilvægi skilvirkra og samhæfðra aðgerða með mannúð að leiðarljósi ótvírætt. Ísland hefur lengi verið þekkt fyrir framlag sitt til alþjóðasamstarfs, ekki aðeins í gegnum fjárframlög til mannúðarstarfs heldur einnig í gegnum virkan stuðning við lýðræðisþróun og mannréttindi. Sú hefð er mikilvægari en nokkru sinni fyrr þar sem við sjáum stríð og átök herja á saklaust fólk, jafnvel á meðan við erum saman komin hér.

Eitt af þeim verkefnum sem ber hæst í skýrslunni er óbilandi stuðningur okkar við Úkraínu í baráttu hennar gegn yfirgangi og innrásarher Rússa. Þetta stríð, sem er ekki aðeins átök um landsvæði heldur barátta fyrir grundvallargildum lýðræðis og frelsis, minnir okkur á það mikilvæga hlutverk sem smærri ríki geta haft við að styðja við og styrkja alþjóðalög. Í ljósi þessa hlutverks er ekki síður mikilvægt að minnast á átökin á Gaza-svæðinu þar sem Ísland hefur lýst yfir stuðningi við mannúðarmál og kallað eftir vopnahléi. Þar hefði verið tækifæri til þess að skipa leiðandi hlutverk í að vinna að friði en því miður skorti allan áhuga á slíku leiðtogahlutverki hjá hæstv. afleysingarráðherra sem tók við embættinu hluta af árinu.

Það er í þessum anda sem við eigum að líta til framtíðar. Við Píratar höfum ávallt lagt áherslu á gildi eins og gagnsæi, almannahagsmuni og virðingu fyrir mannréttindum. Þessi gildi eiga ekki aðeins við innanlandsstjórnmálin heldur einnig það hvernig við mætum á alþjóðavettvangi. Í ljósi þeirrar aðstoðar sem við veitum þurfum við einnig að gæta að því að mannúðaraðstoð og þróunarsamvinna eru ekki aðeins bráðabirgðalausnir heldur þarf það að vera hluti af langtímastefnu sem miðar að sjálfbærni og stöðugleika þeirra samfélaga sem við erum að aðstoða. Það er ekki nóg að bregðast við neyð heldur verðum við líka að byggja upp getu þessara samfélaga til að standa á eigin fótum. Ísland hefur einstakt tækifæri til að vera rödd fyrir smærri þjóðir í alþjóðasamfélaginu, rödd sem berst fyrir réttlæti, friði og sjálfbærni. Við getum verið brúarsmiðir í alþjóðamálum, brúarsmiðir sem byggja á stöðvum réttlætis, jafnréttis og mannréttinda. Látum okkur öllum vera það ljóst að ábyrgðin sem hvílir á herðum okkar er mikil. Við getum ekki horft fram hjá þeirri þörf sem er á okkar framlagi, hvort sem er í mannúðaraðstoð, í stuðningi við þjóðir í baráttu fyrir frelsi sínu eða í því að viðhalda og styrkja alþjóðlegar stofnanir. Þá á Ísland ekki bara að vera þátttakandi. Ísland á að vera leiðtogi.