154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

Störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hafa nýtt þennan ræðustól í dag og í gær til að tala fyrir friði. Það er ekki vanþörf á þessa dagana vegna þess að stríðsátökin í Úkraínu virðast hafa komið upp mjög mikilli rörsýn á allt alþjóðastarf síðustu misseri. Auðvitað þarf að bregðast við ástandinu í Úkraínu en nú erum við að horfa upp á það að norrænt samstarf og Evrópusamstarf er að verða gegnsósa af hernaðarhyggju sem á ekki erindi þar inn. Samstarf sem snýst um menningarsamninga, snýst um það að búa til sameiginlega sjálfsmynd stórra svæða í heiminum, á að vera á forsendum fólks, friðar og mannúðar.

Vandinn er að þessi rörsýn hefur líka smitað hæstv. utanríkisráðherra, eins og birtist í því að hún talar um það að við sem tölum fyrir friðsamlegum lausnum þurfum að fullorðnast og að við sem gagnrýndum það að í tillögu um stuðning við Úkraínu væri verið að breyta eðli samstarfs Íslands, með því að veita peninga í bein vopnakaup, þyrftum að fullorðnast. Ráðherra finnst þetta ekki vera eðlisbreyting vegna þess að það er komið í ljós að ráðherra hafði einhvern veginn í lokuðum bakherbergjum byrjað að veita fjármuni í sjóði til að kaupa hergögn í einhver misseri. Það var ekki almannavitneskja og það er vandinn við öryggis- og varnarmál hér á landi, allt gerist bak við luktar dyr, hvort sem það er sú staðreynd að aldrei hafi verið meiri framkvæmdir á Keflavíkurvelli en akkúrat núna, það birtist ekki fyrr en við plokkuðum ofan af fjármálaáætlun hér þar sem átti að sinna viðhaldsframkvæmdum, nú eða það að viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli hefur verið varanleg frá árinu 2015. (Forseti hringir.) Sú staðreynd varð ekki ljós fyrr en þremur árum síðar þegar þingið fór að grennslast fyrir um það. (Forseti hringir.) Ísland á að nýta sér sína sérstöðu sem herlaust land. (Forseti hringir.) Við eigum að tala fyrir friði. Við eigum allt að gera annað en að kynda ófriðarbál. (Forseti hringir.) Til þess þarf að snúa baki við því leynimakki í kringum öryggis- og varnarmál sem ríkisstjórnin hefur iðkað af kappi á síðustu árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)