framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og skil vel þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur hér uppi. Inn á þetta er komið í 4. gr. frumvarpsins hvar segir, virðulegi forseti:
„Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela framkvæmdanefnd ábyrgð á lögbundnum og ólögbundnum verkefnum sveitarfélagsins að hluta til eða í heild, að undanskildum þeim verkefnum sem mælt er fyrir um í 58. gr. sveitarstjórnarlaga.“
Ég tel — og því fór ég yfir það í löngu máli í framsögunni að við höfum lagt upp með það, og þetta segi ég vegna þess að ég veit að frumvarpið er unnið í mikilli samvinnu við sveitarstjórnina í Grindavík sem um þetta ræðir og þetta er ákveðin nýsköpun í lagasmíð eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og ég fór yfir hér áðan — að hér séum við í rauninni alltaf að ganga út frá því að þetta sé ákvörðun sveitarfélagsins eins og kemur fram í 4. gr. Ég bara vona að okkur hafi tekist og tel að okkur hafi tekist með því bæði að hnykkja á ákveðnum atriðum sem ég fór yfir í nefndarálitinu, eða reyndi að reifa í gegnum ræðuna og eru í nefndarálitinu og því sem fram kemur í frumvarpinu, að það sé alveg á hreinu.