154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:30]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Ég tel bara mikilvægt að það sé formað vel í samkomulagi við sveitarfélagið með hvaða hætti þetta er gert. Ég skil mikilvægi þess að þetta verði að veruleika af því að það getur engin sveitarstjórn, hver sem hún er, ráðið við verkefni eins og nú dynur yfir þetta samfélag. Þetta er því nauðsynlegt en það er rétt og eðlilegt að við gerum þetta eins vel og hægt er.

Það er annað sem mig langar að nefna og það varðar umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það kemur fram í greinargerðinni að hugsanlega megi nota jöfnunarsjóðinn í tiltekin verkefni í Grindavík. Sambandið varar við þessu af því að jöfnunarsjóður starfar eftir ákveðnum lögum og hann styður við og styrkir ákveðin verkefni. Þarna erum við að horfa til sveitarfélags sem hefur orðið fyrir hamförum og þá veltir maður fyrir sér: Er eðlilegt að það sé verið að beina kostnaði af verkefnum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þegar það ætti í raun og veru að vera einhver hamfarasjóður sem myndi grípa þann kostnað sem til fellur í Grindavík? Við vitum að hann mun velta á milljörðum. Þó að sveitarfélagið hafi fyrir þennan atburð verið eitt stöndugasta sveitarfélag á Íslandi er ekkert sem réttlætir það í sjálfu sér að sveitarfélagið beri allan þann kostnað sem af þessum hamförum mun hljótast þegar þeim verður lokið.

En ég spyr hvernig ráðgert er að nýta jöfnunarsjóðinn sem ætlað var að nota í allt önnur verkefni.