154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur andsvarið. Ég hygg að það sem hv. þingmaður var að vísa til hafi verið upptalning á ákveðnum aðilum sem gætu komið að málum, ef ég fylgdist rétt með. Ég held að ég hafi hins vegar ekki ávarpað sérstaklega landshlutasamtökin. Af því að hv. þingmaður spyr hvort það hafi verið einhver umræða fyrir nefndinni um landshlutasamtök, sem ég vænti þá að séu til að mynda samtökin á Suðurnesjum og þau tilheyra sveitarfélögum sem sannarlega hafa tekið vel við og aðstoðað í þessum ótrúlegu aðstæðum, þá var það ekki sérstaklega rætt í nefndinni, af því að frumvarpið sem hér um ræðir varðar það að fara í þessa nýsköpun í lagasmíð með því að koma á fót þessari framkvæmdanefnd sem svo aftur eru falin verkefni samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnarinnar. Þannig að það var ekki sérstaklega rætt í nefndinni, nei.