154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá er þetta bara eitt af því sem þetta samstarf, framkvæmdastjórnin og bæjarstjórnin, þarf að fara að ákveða hvernig verður háttað.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort nefndin hafi eitthvað rætt þá stöðu sem er uppi í Grindavík við þingmenn. Ég hygg að það séu ekki bara þingmenn Suðurkjördæmis sem fá pósta frá Grindvíkingum. Það er kvartað undan ýmsu þar; seinagangi í afgreiðslu mála og það er einnig kallað eftir uppkaupum á húsnæði fyrirtækja og stuðningi við þau fyrirtæki sem annaðhvort þurfa að hætta að starfa í Grindavík eða hin sem geta haldið áfram að starfa í Grindavík og svo þau sem geta flutt starfsemi sína annað. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi verið rætt um þessa stöðu.

Ég vil nýta þetta tækifæri til að segja að ég var ánægð með það á sínum tíma þegar ákveðið var að skipa þverpólitíska nefnd til að ræða stöðuna og umgjörðina í kringum Fasteignafélagið Þórkötlu. Það varð til þess að allir þingflokkar voru inni í málum. Nefndin sem er að ræða um framhaldið og um umgjörðina í kringum fyrirtækin er hins vegar ekki þverpólitísk, hún er alla vega ekki skipuð alþingismönnum, og maður hefur svolítið verið í myrkrinu hvað það varðar og við þingmenn eigum erfitt með að svara fólkinu sem er að spyrja okkur spurninga og ætlast auðvitað til þess að við séum vel inni í málum. Var þessi staða rædd í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í kringum þetta frumvarp og hvernig þá?