154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

vaxtaákvarðanir Seðlabankans.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í draumalandi hv. þingmanns, sem er Evrópusambandið, þá hefur kaupmáttur millistéttarinnar farið lækkandi út af hærra orkuverði og laun hafa ekki haldið í við verðlag. Kaupmáttarrýrnun er það sem við köllum það. Á Íslandi hefur okkur tekist að verja kaupmáttinn. Hann hefur farið vaxandi. Við höfum líklega, segjum það svona með ákveðnum fyrirvara; ég býst við að við höfum síðastliðinn áratug sett met í kaupmáttarvexti, bæði ráðstöfunartekna launa og varðandi kaupmátt bóta almannatrygginga ríkisins. Þetta er árangurinn af efnahagsstjórninni undanfarinn áratug fyrir utan það að við erum á alla mælikvarða sem máli skipta í efnahagslegu tilliti sterkari ríki en áður. Eða hvaða ár annað ætlar hv. þingmaður að velja í lýðveldissögunni — nú höldum við upp á 80 ára afmælið í sumar þar sem staða efnahagsmála var sterkari heldur en árið 2024. Þetta er sterkasta ár Íslands í efnahagssögunni, 2024, aldrei staðið betur. (ÞKG: Af hverju … í heimi?)