154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

samkomulag ESB í málefnum hælisleitenda.

[10:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. (Gripið fram í.) Það vill raunar svo til að ég hyggst spyrja hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra út í brall Evrópusambandsins, draumalands Viðreisnar eins og hér var getið um áðan, en að mér setti ugg í vikunni þegar Evrópusambandið eftir mörg ár sammæltist um innflytjendapakka ESB sem felur m.a. í sér að lönd verði skikkuð til að taka við ákveðnum fjölda hælisleitenda eða sæta sektum ella. Þetta samþykktu á endanum tel ég öll lönd nema þrjú; Pólland, Ungverjaland og Slóvakía.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er einhver hætta á því að Ísland dragist inn í þetta samkomulag? Við höfum séð dæmi um það að Ísland leiðist út í þátttöku í hinum ýmsu pökkum Evrópusambandsins, jafnvel þegar ekki er þörf á, og það hefur verið nefnt hér í þinginu að það kynni að vera æskilegt fyrir Ísland að taka þátt í þessum áformum þegar þau liggja fyrir. Því spyr ég einfaldlega hæstv. ráðherra: Kemur til greina að Ísland dragist inn í þetta, taki þátt í þessum hælisleitendapakka ESB eða getur hæstv. ráðherra fullyrt að svo verði ekki?