154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

samkomulag ESB í málefnum hælisleitenda.

[10:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég kýs að túlka þetta svar sem svo að ekki standi til, og hæstv. ráðherra hafi staðfest það hér, að taka þátt í þessum pakka Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef þetta er ekki réttur skilningur. En ég vil þá nota tækifærið og spyrja um annað mál sem varðar ástandið í Georgíu. Ég skal viðurkenna, frú forseti, að ég veit ekki fyllilega hvernig þau mál standa, það má ekki alltaf treysta því sem birtist í fréttum. Sagðar voru fréttir af því að ég hefði verið að háma í mig súkkulaðiköku hér, talandi um lýðveldiskökur hæstv. forsætisráðherra, þegar ég hafði einungis litið á kökuna. Ég veit því ekki hver staðan er hjá stjórnvöldum í Georgíu varðandi þeirra mál.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Er það með vilja og vitund hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að hæstv. utanríkisráðherra Íslands fer til Georgíu og tekur þar þátt í mótmælum? Er þar með lýst afstöðu ríkisstjórnar Íslands og er þetta eitthvað (Forseti hringir.) sem við getum átt von á, að ráðherrar landsins taki þátt í mótmælum í öðrum löndum?