154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:21]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hafa forgöngu um þessa sérstöku umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra var hér rétt í þessu að fjalla um eflingu sérnáms í heimilislækningum og talaði um þetta sem sérstakt áherslumál. Ég vil af þessu tilefni vitna hér í bréf sem ég veit að hæstv. ráðherra barst frá Félagi íslenskra heimilislækna þann 8. apríl sl., með leyfi forseta:

„Það er skýrt að efling sérnáms í heimilislækningum er einvörðungu vegna þeirra aðila sem koma að sérnáminu, velvilja viðeigandi stofnanna og FÍH. Það fylgir sérnáminu lítill sem enginn stuðningur frá ráðuneytinu og engin aukin fjárveiting hefur verið veitt til þess frá 2018. Þær stöður sem eru að hluta kostaðar af ráðuneytinu eru 15 í mesta lagi. Stjórn FÍH finnst mikilvægt að ráðuneytið átti sig á þessum þætti og skorti á raunverulegri stefnu ráðuneytisins í fjármögnun sérnáms.“

Það er skýrt að efling sérnáms í heimilislækningum er einvörðungu vegna þeirra aðila sem koma að sérnáminu, velvilja viðeigandi stofnana og er því háð. Það fylgir sérnáminu lítill sem enginn stuðningur frá ráðuneytinu og engin aukin fjárveiting hefur verið veitt til þess frá 2018. Þær stöður sem eru að hluta kostaðar af ráðuneytinu eru 15 í mesta lagi. Stjórn FÍH finnst mikilvægt að ráðuneytið átti sig á þessum þætti og skorti á raunverulegri stefnu ráðuneytisins í fjármögnun sérnáms.“

Svo mörg voru þau orð í þessu bréfi sem hæstv. ráðherra barst frá Félagi heimilislækna þann 8. apríl sl.

Við ræðum hér almennt um heilsugæsluþjónustu og sérstaklega um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er auðvitað grunnþjónusta. Stjórnvöld og löggjafinn sem fer með fjárveitingavaldið bera ábyrgð á því að tryggja að þessi grunnþjónusta sé í lagi. Staða heilsugæslunnar um allt land hefur þyngst verulega á undanförnum árum eftir því sem hún hefur fengið fleiri og flóknari verkefni í fangið án þess að þjónustan sé fjármögnuð almennilega, án þess að það takist að laða fólk til starfa með góðum launum og góðum starfsaðstæðum. Hér á höfuðborgarsvæðinu birtist þetta m.a. í manneklu og flótta starfsfólks sem bara getur ekki meir vegna álags. (Forseti hringir.) Mér skilst að álagið hafi bara stökkbreyst frá því í Covid. En svo eru það auðvitað líka húsnæðismálin (Forseti hringir.) sem eru í ólestri og ég veit að margir sem starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) klóra sér í kollinum yfir því hve hægt hefur gengið að koma þeim í betra horf, svo ég vil hvetja ráðherra til dáða.