154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:23]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Það er full ástæða til að ræða áskoranir heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars er spurt að því hvað stjórnvöld aðhafist til að létta undir með stöðunni, bæta hana. En það hefur verið merkilegt að fylgjast með því hvernig ólík rekstrarform heilsugæslu á svæðinu hafa mætt þessum áskorunum. Þannig bera einkareknu stöðvarnar af í samanburði þegar kemur að viðhorfi notenda til þjónustunnar. Ánægja og traust notenda einkarekinna heilsugæslustöðva mælist ítrekað meira en þeirra sem eru reknar af hinu opinbera þótt þróunin heilt yfir sé áhyggjuefni. Þetta undirstrikar engu að síður hversu mikilvægt það er að fólk hafi valfrelsi í heilbrigðisþjónustu eins og annarri þjónustu. Við þurfum að nýta okkur fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu til að bæta aðgengi og styrkja þjónustu í nærumhverfi.

Hv. málshefjandi vekur athygli á tækniþróun í þessari umræðu og spyr um tækifæri og áskoranir. Þar hef ég mestar áhyggjur af viðhorfum hins opinbera til tækninýjunga. Það virðist nefnilega ganga mun hægar hjá hinu opinbera að brjóta niður þá veggi sem stjórnvöld segja að séu uppi á milli heilbrigðisþjónustu og þeirrar tækni sem er til staðar. Áhyggjur mínar snúa að því að gamaldags hugsun komi í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu, en ég hef viðrað þær áður hér í þessum þingsal. Íslenskir frumkvöðlar lýsa því að heilbrigðiskerfið hér sé ekki móttækilegt fyrir tæknilausnum sem eru þegar til staðar og gætu vel mætt ýmiss konar vanda og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil því hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að greiða fyrir tækninýjungum og nýsköpunarsamstarfi í heilbrigðiskerfinu og láta ekki gamaldags hugsun og fordóma halda aftur af eðlilegri og nauðsynlegri þróun.