154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra einnig. Hvernig er staðan á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu? Hvað er til ráða? Hvað eru stjórnvöld að gera? Jú, staðan er þannig að maður hringir í heimilislækninn og biður um tíma og ef maður er nú í andarslitrunum þá er eins gott að drífa sig bara niður á slysó vegna þess að maður fær tíma ýmist tíu dögum síðar eða jafnvel einhvern tímann í næsta mánuði. Hins vegar liggur það algjörlega ljóst fyrir að álagið er gífurlegt á þá heilsugæslulækna sem eru að störfum vegna þess, eins og hér hefur komið fram, þá er alltaf fjölgun og frekari áskoranir hvað lýtur að fólksfjölda, hvað lýtur að ferðamönnum og okkur íbúum landsins sem fjölgar stöðugt og við verðum eldri og þurfum meira á heilsugæslunni að halda. Ég velti sérstaklega fyrir mér hvað stjórnvöld eru raunverulega að gera til að taka þennan tappa úr flöskuhálsinum. Hvað erum við að gera til þess að koma með aukið flæði af læknum inn í þessi sérhæfðu störf? Við erum með öfluga flöskuhálsa inn í háskólann, inn í menntunina. Það er bara erfitt að komast að til að fá að nema hér. Í raun og veru má segja að stór hluti af nemum sem vilja mennta sig fari jafnvel erlendis. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki hagur okkar allra og það langbesta sem við mögulega getum gert, að reyna að byggja upp örvandi kerfi og taka utan um þá einstaklinga sem raunverulega hafa áhuga á því að mennta sig á sviði heimilislækninga og auðvelda þeim það á allan hátt þannig að við fjölgum læknum í takti við þörfina. Ég ætla ekki að tala um landsbyggðina, þar sem við erum sérstaklega að tala um höfuðborgarsvæðið hér, (Forseti hringir.) því að þar ríkir náttúrlega, eins og allir vita, algjört ófremdarástand.