Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Forseti. Þetta er ekkert flókið. Það sem fólk fer fram á fyrst og fremst er að geta pantað tíma hjá lækni þegar það þarf að hitta lækni. Hljómar nokkuð augljóst og er augljóst. Það hefur verið mín tilfinning á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér á þingi og átt samskiptum við stjórnvöld varðandi heilsugæsluna, að það þyki ásættanlegt af hálfu þessara stjórnvalda að fólk bíði í þrjá mánuði, sem sagt 90 daga, eftir tíma hjá heimilislækni. Um daginn fór ég í vinnuferð til Evrópu yfir á meginlandið, vitandi það að í Frakklandi, þar sem ég bjó fyrir nokkrum árum síðan, get ég pantað tíma hjá lækni. Ég panta tíma hjá heimilislækni og ekki nóg með það heldur fékk ég tíma hjá heimilislækni daginn eftir, morguninn eftir. Ég gat valið um tíma klukkan átta, hálfníu, níu, tíu eða ellefu. Ég fékk tíma hjá heimilislækni og læknirinn sendi mig til sérfræðings. Því miður þurfti ég að bíða dálítið eftir tíma hjá sérfræðingnum því að það var enginn tími laus hjá sérfræðingi af þessu tagi fyrr en á fimmtudeginum.
Forseti. Það er lágmarkskrafa að fólk geti hitt heimilislækni þegar það þarf að hitta lækni og þá er þriggja mánaða bið ekki ásættanleg. Ekki nóg með það að hún sé óásættanleg vegna þess þjónustustigs sem við förum fram á heldur getur sú bið einfaldlega verið lífshættuleg. Ég tala nú ekki um þegar búið er að gera heimilislækna að skiptiborði allrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi nokkurn veginn.