154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst skipta máli hér sem þingmaður Reykvíkinga að setja þetta í samhengi við stöðuna á höfuðborgarsvæðinu alveg sérstaklega þar sem borgarbúum er að fjölga mjög mikið og hratt. Íbúar eru að eldast en á sama tíma er mönnun heimilislækna í algeru sögulegu lágmarki og það þyrfti að þrefalda fjölda heimilislækna í fullu starfi. Það sárvantar einfaldlega heimilislækna og þeim fjölgar og fjölgar sem eru án heimilislæknis. Það er áhugavert að við vorum að hlusta á hæstv. forsætisráðherra hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma rétt áðan þar sem hann talaði um hvað Íslendingar væru í öfundsverðri stöðu en eftir sjö ára samstarf þessarar ríkisstjórnar þá blasir samt við sú mynd þegar við horfum á grunnþjónustuna að við búum ekki við mikið öryggi. Hér var talað um heimilislækna á landsbyggðinni og þannig mætti horfa á heilsugæsluna yfir landið allt. Aðgengi fólks að heimilislæknum er ófullnægjandi. Hið sama á við um grunnskólana, stöðuna þar, samgöngur, löggæslu. Grunnþjónusta í landinu öllu stendur veikt eftir sjö ára samstarf þessara flokka þriggja.

Tvennt blasir við. Það þarf að fjölga heimilislæknum og það þarf að gefa þeim færi á að gera það sem þeir gera best, sem er að fá að vera læknar en ekki að drekkja þeim í alls konar aukastörfum öðrum. Verkefnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað jafnt og þétt en sjálf læknaþjónustan er nánast komin í aukahlutverk. Fólk fer í nám til að sinna læknisþjónustu og er drekkt í pappírsstörfum og alls konar verkefnum mögulegum og ómögulegum öðrum en læknisþjónustu. Læknar eru að biðja um tíma til að fá að vera læknar.

Það er líka áhugavert að skoða nýja fjármálaáætlun, stefnuplagg ríkisstjórnarinnar til næstu ára, þegar við skoðum meginmarkmiðin um heilsugæsluna. Orðið læknir kemur ekki fyrir. Það sést ekki. Ótrúlega lýsandi um þetta samhengi hlutanna. (Forseti hringir.) Ég vil bara fá að endurtaka spurningu Hönnu Katrínar Friðriksson frá því hér áðan þar sem hún spyr að því hvort það sé sjálfstætt markmið að draga úr vægi heimilislækna í heilbrigðisþjónustunni.