154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:35]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Heilsugæslan hefur auðvitað mjög víðtækt hlutverk og það sést bara vel þegar stefna hennar er skoðuð, til að mynda þegar kemur að fyrsta vali fólks þegar þörf er á almennri heilbrigðisþjónustu. Það eru ýmsar áskoranir eðli málsins samkvæmt sem þessu fylgja og við getum nefnt það þegar sveitarfélög stækka og þenjast út að heilsugæslan þarf auðvitað að geta verið á hreyfingu. Það er ýmislegt hægt að gera þegar unnið er fyrir fólk og með fólki.

Hér er talað um langa bið og þá vil ég sérstaklega ræða breytingu sem hæstv. ráðherra er að gera á gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn þar sem áskilið hefur verið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda og létta undir með notendum og heilsugæslulæknum. Það verður m.a. gert með ýmsum aðgerðum. Við getum nefnt hér að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein, telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður felld á brott. Hér er auðvitað hægt að taka á ýmsum öðrum breytingum sem verið er að gera í þessari reglugerð en punkturinn minn er kannski sá að þegar unnið er með fólki og fyrir fólk, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið að gera í sinni tíð, þá er hægt að gera betur og það erum við að gera. Við hæstv. heilbrigðisráðherra vil ég segja: Höldum áfram á þessari vegferð. Höldum áfram að vinna með fólki og með læknum og heilbrigðisstarfsfólki hér á landi.