154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í öruggum skrefum, sem Samfylkingin kynnti á síðasta ári, áherslum um heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu á Íslandi, kemur fram að aðeins helmingur íslenskra landsmanna hefur fastan heimilislækni. Hlutfallið er 95% í Noregi. Þetta er mjög mikið áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess að afleiðingin er sú að það er 30% líklegra að þau sem hafa ekki fastan heimilislækni þurfi innlögn á sjúkrahús heldur en hin sem eru svo heppin að hafa fastan lækni sem þau geta leitað til. Í öruggum skrefum leggur Samfylkingin áherslu á aðgengi og auðvitað öryggi. Þetta snýst um það að fyrsta stigs heilbrigðisþjónustan sé opin og biðtíminn sé ekki of langur og hún sé gjaldfrjáls. Það er lykillinn að góðri lýðheilsu þjóðarinnar.

Hér hefur verið rætt um mönnunarvandann og mannekluna. Það er ekki nýtilkominn vandi, hann hefur verið viðvarandi um árabil og stéttarfélög og heilbrigðisstarfsfólk ítrekað vakið athygli á honum. Ég hef ekki orðið vör við að það sé verið að mæta þeim vanda með markmiðsmiðuðum aðgerðum og fjármögnuðum. Við vitum að við þurfum að fjölga læknanemum við HÍ og við þurfum að hleypa fleirum í læknisfræðinám og það á reyndar við um fleiri heilbrigðisstéttir. Við þurfum að efla sérnám í heimilislækningum eins og kom skýrt fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar og bréfinu frá Félagi íslenskra heimilislækna. Við þurfum að sjá til þess að tæknin vinni með þjónustunni en ekki gegn henni. Við þurfum og verðum að fjárfesta í miðlægri sjúkraskrá og við verðum að minnka vottorðafarganið, eins og komið hefur fram hér ítrekað. Og að síðustu verður einkarekstur í heilbrigðisþjónustu alltaf að vera á forsendum hins opinbera (Forseti hringir.) vegna þess að einkareksturinn er, eins og önnur þjónusta, greiddur með skattfé almennings.