154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:39]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Árið 2017 var tekið í gagnið nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og það var þáverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, sem ýtti því úr vör. Með breytingunum á fjármögnun heilsugæslunnar var ætlunin að fjármagn til reksturs endurspeglaði þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónaði. Markmiðið var að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata til að stuðla að betri þjónustu, hagkvæmari rekstri og gera heilsugæslunni kleift að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Grundvallarforsendur endurbótanna fólust í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þjónustunnar þar sem markmiðið var að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Fjármögnunin byggir á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem heilsugæslan þjónar. Þá fylgir fjármagnið sjúklingnum — ef hann færir sig á aðra heilsugæslustöð fylgir fjármagnið með. Breytingarnar hafa þegar skilað árangri þar sem hlutdeild veittrar þjónustu á heilsugæslustöð jókst í heildargrunnheilbrigðisþjónustu og þá fjölgaði skráðum einstaklingum heilsugæslustöðva og þúsundir fluttu sig yfir á aðra heilsugæslustöð sem hentaði þeim betur.

Í reglubundnum ánægjumælingum hefur það sýnt sig að ánægja með þjónustuna hefur farið vaxandi í kjölfar breytinganna og þá sérstaklega hjá einkareknu heilsugæslustöðvunum sem standa fremstar á flestum mælikvörðum. Það er því ákveðið áhyggjuefni að sjá nýjustu þjónustukönnun Sjúkratrygginga Íslands þar sem ánægja og traust til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi á flestum ef ekki öllum stöðvunum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra sé meðvitaður um þessa þróun og vænti þess að hann bregðist við til að snúa henni við á nýjan leik.