Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
.Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra. Í þá gömlu góðu daga, þegar maður þurfti á heimilislækni að halda, þá hringdi maður og fékk tíma, var spurður hvort maður gæti komið jafnvel samdægurs eða á morgun eða hvenær hentaði. En hvað hefur breyst síðan? Ég átta mig ekki alveg nógu vel á því, hvort það er tæknin sem er að þvælast fyrir læknunum eða hvað er í gangi vegna þess að ef ég ætlaði að reyna að ná í heimilislækninn minn í dag þá fengi ég sennilega: Þú ert númer 99 á bið. Og ég get reiknað það út að það er svona einn og hálfur til tveir tímar þangað til ég kæmist að ef ég er heppinn.
En hvað skeður ef ég kemst ekki að? Jú, þá á ég að reyna aftur eftir einn mánuð. Ef ég reyni svo aftur eftir mánuð og kemst að, þá fæ ég tíma einum og hálfum til tveimur mánuðum seinna. Þá eru komnir þrír mánuðir án læknis. Það er auðvitað algjörlega óverjandi að við skulum vera í þeirri stöðu að hafa kerfið svona. Ég vorkenni þeim læknum sem þurfa að vinna við svona álag og ég hugsa með mér: Bíddu, ef við erum að útskrifa einhverja tugi lækna og það á að senda þá inn í svona vinnuumhverfi þá hljóta þeir að hugsa sig um ef þeir geta fengið eitthvað annað til að starfa við.
En ég redda mér á Heilsuveru. Hingað til hefur það tekist en það kemur að því að það verður ekki hægt og ég vorkenni eldra fólki sem er númer 99 á bið og þarf kannski að bíða í einn og hálfan til tvo tíma. Fyrir heilbrigðan einstakling er það örugglega pína að þurfa að bíða svo lengi, hvað þá fyrir veikan einstaklinga, aldraðan sem á að reyna — hvað? Hvernig á hann í ósköpunum að fara að þessu? Við verðum að leysa þetta mál. Þetta er auðleysanlegt mál en einhverra hluta vegna virðist þessi ríkisstjórn ekki geta leyst það og ekki hæstv. heilbrigðisráðherra. Þannig að spurningin er bara: Hvers vegna ekki?