Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þessi umræða hér er mikilvæg. Ég tek einnig undir með þeim sem hafa sagt að það sé mikilvægt að fjölga heimilislæknum og hæstv. ráðherra fór reyndar yfir það sem hefur verið í gangi á því sviði. Þar þarf að halda áfram. Ég er einnig sammála því að við erum líklega komin of langt í því hverju þarf að skila inn vottorðum fyrir. Auðvitað þarf vottorð fyrir sumt en ég held að þarna þyrftum við að fara yfir og sigta út það sem virkilega skiptir máli því læknar hafa bent á að of mikill tími fari í þetta. Markmið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er m.a. bjóða upp á samfellda, aðgengilega og heildræna þjónustu. Mér finnst mikilvægt að því verði haldið áfram á þessum oft fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðisþjónustu, að sú þjónusta sé þverfagleg. Geðheilsuteymin sem komið hefur verið á fót eru í mínum huga gríðarlega mikilvæg og þau þarf að halda áfram að efla því að það skiptir máli að sú starfsemi sé innan heilsugæslunnar.
Ég vil svo taka undir það að lokum sem sagt hefur verið að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu verður alltaf að vera á forsendum hins opinbera, enda er hann fjármagnaður með skattfé. Og ég vil svo að lokum segja að mér finnst skipta máli í allri þessari umræðu að veikindi fólks eiga ekki að verða öðrum að féþúfu og það eigum við að hafa í huga þegar við skipuleggjum heilbrigðismálin í þessu landi.