154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að þakka þinginu fyrir að vinna þessa vinnu hratt og vel og koma henni hingað inn. Þannig háttar til að þetta er landsskipulagsstefna númer tvö. Svo merkilegt sem það nú hljómar hefur sá sem hér stendur sett vinnu við báðar í gang, annars vegar sem umhverfisráðherra og hins vegar sem innviðaráðherra, en er í hvorugt skipti ráðherra þegar þær eru samþykktar. Hér er hins vegar talað um að það hefði þurft að vinna miklu lengur og gera miklu meira og dýpka alla hluti. Ég hefði kannski áhyggjur af því að þá myndum við aldrei klára landsskipulagsstefnu. Þetta er viðvarandi verkefni sem þarf að fara ofan í aftur og aftur. Þess vegna er innbyggt í lögin upphaflega að það þurfi að endurskoða þau.

Ég fagna því að við séum þó búin að taka þetta skref núna í annað sinn og þakka sjálfur af mikilli auðmýkt fyrir að hafa fengið að taka þátt í því en þakka þinginu miklu heldur fyrir að hafa lokið þessu starfi í dag.