154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

húsnæðisbætur.

1075. mál
[14:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég styð þetta mál en í ljósi þess að lítið er gert af því í nefndaráliti meiri hlutans að árétta umsagnir sem hafa borist þá hafa m.a. Landssamtökin Þroskahjálp bent á að þetta frumvarp sé hluti af stuðningspakka stjórnvalda við nýgerða kjarasamninga, kjarasamninga sem ná ekki til örorkulífeyrisþega. Taka samtökin dæmi um það hvernig margt fólk með tilteknar fatlanir situr á hakanum. ÖBÍ réttindasamtök vekja líka athygli á því að það þarf að huga að þessum viðmiðum heildstætt svo að kjarabætur í einu stuðningsneti verði ekki skertar vegna viðmiða í öðru. Þá, líkt og hér hefur komið fram, hefur verið bent á að æskilegt væri að sveitarfélög myndu taka til skoðunar hvort breyta þurfi reglum um hámark samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings svo að fyrirhugaðar hækkanir skili sér til leigjenda. Undir þetta tekur sömuleiðis Alþýðusamband Íslands sem bendir jafnframt á (Forseti hringir.) að þó að þau hvetji til þess að málið nái fram að ganga þurfi að ráðast í umfangsmeiri aðgerðir til að bregðast við stöðunni.