154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar andsvar. Ég er sammála hv. þingmanni um að það gerist ekkert allt á forsendum markaðarins. Hann ræður ekki við allt og ég tala nú ekki um þegar um er að ræða jaðartilvik, tilvik eins og við erum að glíma við núna. Þar verður ríkið að grípa inn í eða samfélagið. Hvort sem það er ríki eða sveitarfélög þá verðum við á félagslegum grunni að grípa inn í þetta. Einhvern veginn fannst mér sjónarmiðið vera þegar Þórkatla var stofnuð og þessi úrræði voru sett af stað að það væri eins og fólk héldi að það væri bara búið að bjarga Grindavík, en við erum ekki búin að því. Við erum búin að gera fullt og við skulum þakka fyrir þær aðgerðir sem hefur verið gripið til en við höfum ekki gert það sem við hefðum getað gert. Við þurfum aðeins að horfa inn á við og spyrja okkur að því hvað við getum gert betur.