154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem var um margt áhugaverð. Hann sagði m.a. að stjórnvöld eða ríkisstjórnin hefði lofað því að enginn myndi lenda á milli skips og bryggju, tók jafnframt fram að mörg fyrirtæki væru hreinlega að gefast upp og fór líka vel yfir stöðu sveitarfélagsins og að möguleikar sveitarfélagsins Grindavíkur til að afla sér tekna væru nánast horfnir.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um varðar t.d. einstaklinga sem hafa fallið á milli skips og bryggju. Ég fékk póst frá einum einstaklingi sem býr í Grindavík sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég á tvær íbúðir í sama húsi með tvö fastanúmer. Ég fæ bara aðra íbúðina borgaða af því að ég er bara með lögheimili uppi en ekki niðri og get þess vegna ekki keypt aðra eign.“

Ég talaði við hana og það var augljóst mál að hún byggi í báðum rýmunum. Fastanúmerin eru þarna bæði og hún skráir sig bara á annað, hún getur ekki skráð sig á bæði. Það er mikið um svona lagað sem er ekki algerlega eins og eftir bókinni. Þetta frumvarp tekur ekki á málum einstaklinga eins og þess sem hér um ræðir.

Annað sem mér fannst mjög áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á í máli sínu er varðandi rekstrarstuðninginn. Ég mun kannski koma betur að þessu í seinna andsvari en rekstrarstuðningurinn vegna hamfaranna á að tryggja að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara. Þetta er miðað við 40% tekjufall. Útreikningurinn á styrknum er margfeldnistuðull sem miðast við fjölda stöðugilda á viðkomandi almanaksári á undan, svo er annar stuðningur sem er launastuðningur.(Forseti hringir.) Af hverju er verið að miða við stöðugildi? Ég kem betur að þessu í seinna andsvari.