154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar sem er af tvennum toga. Annars vegar er það þetta með lögheimilisskilyrðin sem eru að fara mjög illa með marga. Þar nefnir hann íbúð með tveimur fastanúmerum þar sem aðeins er búið í einu. Það eru mýmörg dæmi um svona. Þegar þú færð bara hálft húsið þitt átt þú oft ekki nema fyrir hálfu húsnæði einhvers staðar annars staðar eða jafnvel minna af því að þú ert að fara inn á erfiðari markað, þannig að þú ert bara í vondri stöðu, hafandi kannski átt einbýlishús og minni íbúð. Þú getur jafnvel ekki farið í blokk í Reykjavík fyrir andvirði þess sem þú færð út úr húsnæðinu í Grindavík. Þarna eru jaðartilfelli sem er ekki búið að taka á.

Síðan er spurningin um rekstrarstuðninginn og hvernig á að finna hann út. Þetta er eitthvert hámark, 6 milljónir á fyrirtæki miðað við 600.000 á tíu einstaklinga eða einhver hlutföll. Spurning er hvort þetta hefðu átt að vera veltustyrkir, að styrkir væru greiddir út sem hlutfall af veltu. Mörg fyrirtæki geta verið að velta miklu, fjölskylda vinnur mikið sjálf í fyrirtæki og ekkert endilega allir á launaskrá. Ekki er víst að svona útfærsla nái utan um alla þá sem eru í raun og veru að reka fyrirtæki og eru með talsverða veltu, því að þú getur verið með mikla veltu þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki margir og þegar sett er hámark á svona styrki er það kannski bara rétt til þess að þú haldir nefinu fyrir ofan vatnið, drukknir ekki alveg núna heldur bara aðeins seinna.