154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[18:59]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Mér finnst einhvern veginn eins og það sé bara búið að velja hverjir fá að lifa og hverjir eiga að deyja. Sjávarútvegsfyrirtækin bjarga sér svolítið sjálf, þau eru með bátana við bryggju og koma aflanum upp í hús. Ef þau koma honum ekki í hús fara þau með aflann eitthvert annað, t.d. hafa sum fyrirtæki farið út í Helguvík og vinna aflann þaðan eða inn í Hafnarfjörð eða eitthvað. Þessi fyrirtæki geta alveg plumað sig. En svo eru önnur fyrirtæki, eins og þjónustufyrirtæki, sem geta ekki nema þau fái greitt út hafið starfsemi annars staðar. Þau ráða bara ekki við það. Fólk hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að gera það. Með því að gera ekkert fyrir þessi fyrirtæki erum við í raun og veru að segja: Þið eigið bara að deyja.

Ég upplifði það á íbúafundi sem haldinn var í Grindavík að formaður stýrihópsins sem var búinn að vera þarna við störf í einhverjar vikur og mánuði upplýsti það á fundinum að veruleg tormerki væru á því að húsnæði væri keypt upp. Þetta var svarið sem íbúarnir eða fyrirtækjaeigendur í Grindavík fengu, að veruleg tormerki væru á því að húsnæði í Grindavík væri keypt upp. Þetta er bara dauðadómur fyrir þessi fyrirtæki. Þau hafa engan séns. Menn eru ekkert með fulla vasa fjár til að fara að fjárfesta í einhverju atvinnuhúsnæði annars staðar þegar allt þeirra eigið fé er bundið í byggingum í Grindavík. Þegar þetta er sett fram með þessum hætti er bara verið að segja: Við þökkum ykkur fyrir að hafa búið í Grindavík og haldið uppi atvinnustarfsemi en svo bara taka einhverjir aðrir við en þið.