154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[19:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kannski eitt af einkennismerkjum þessarar ríkisstjórnar að geta ekki sagt hlutina hreint út, talað skýrt. Eins og við í Viðreisn höfum verið að tala um, hvort sem það er í orkumálum, heilbrigðismálum eða hvar sem borið er niður, er nei svar alveg eins og já og það skiptir máli fyrir fólk í óvissu að hafa skýr svör þannig að fólkið sem er í erfiðleikum og stendur frammi fyrir mjög snúnum viðfangsefnum geti þá farið aðra leið og snúið sér að öðru. Það virðist vera óskaplega erfitt fyrir þau að taka skýrar ákvarðanir.

Rétt í lokin langar mig að spyrja hv. þingmann um einingahúsin. Er það rétt skilið hjá mér að það hafi lítið þokast varðandi kaup á einingahúsum þegar kemur að húsnæði fyrir Grindvíkinga?