154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

1130. mál
[19:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Minn skilningur er sá að í dag sé staðan sú að ekkert hafi þokast. Fyrir sirka mánuði síðan fékk ég að sjá samskipti umboðsaðila — þeir eru ótal margir framleiðendurnir en ég fékk að sjá samskipti umboðsaðila eins slíks. Fyrirtækið er í Eistlandi þar sem var teiknað upp strax í kjölfar þess að atburðirnir gerðust hver tímalína framleiðslu hjá þeim gæti verið, hvenær væri hægt að skila fullbúnum einingum, magn við fyrstu afhendingu og síðan mánaðarlegt eftir það. Ég ímynda mér að það séu fleiri tugir fyrirtækja sem hefðu verið tilbúin til að stilla upp slíku framleiðsluplani. Það væri fyrir allnokkru byrjað að búa í fyrstu sendingum slíkra húsa. Eins og mann renndi í grun strax í byrjun réð ríkisstjórnin ekki við að taka slíka ákvörðun. (Forseti hringir.) Upphafspunkturinn færist þá auðvitað aftur um einn mánuð jafnt og þétt, mánuð fyrir mánuð, og enn hefur engin ákvörðun verið tekin sem gagn er að í þeim efnum.