154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[16:40]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Nei, það er alveg rétt, það er kannski ekki upp á punkt og prik hægt að segja nákvæmlega til um það. Þetta snýr fyrst og fremst eins og við þekkjum að sjávarútvegsfyrirtækjunum sem hafa verið starfandi í Grindavík. Ég veit að það er komið minnisblað til nefndarinnar, það alla vega fór í dag frá matvælaráðuneytinu, þar sem kemur fram að leitað var eftir þessu hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og það hefur alla vega ekki orðið óbeint tjón fram til þess nema rétt í upphafi jarðhræringanna fyrir áramótin. En að öðru leyti eru ekki upplýsingar um það nema bara þegar starfsmennirnir komust ekki, eins og við munum í upphafi, til þess að vitja fyrirtækjanna vegna tjóns sem var þarna kannski í upphafi. En þetta er auðvitað fyrst og fremst sjávarútvegsfyrirtækin og auðvitað einhver örfá veitingahús eða annað slíkt sem þarna er undir en innan marka Grindavíkur.