Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Já, minnisblaðið sem hæstv. ráðherra nefndi hafði eiginlega engar upplýsingar að geyma þannig að það væri gott að fá upplýsingar. Ég held t.d. að það væri hægt að fá upplýsingar um hvaða tjón varð þarna í upphafi. Það er reyndar orðið þannig í dag að það liggur við að fyrirtækin fái að fara inn á innan við 24 tímum í verðmætabjörgun eftir að búið er að sjá hvar gosið er á hverjum tíma, þá er fólki hleypt inn til að bjarga verðmætum. En það sem er hins vegar stærra vandamál núna er rafmagn og aðgangur að vatni og annað slíkt sem getur tekið mun lengri tíma að koma aftur í gang.
Mig langaði í seinni spurningunni að spyrja hæstv. ráðherra varðandi þörfina á þessu vegna þess að nú fer þessum fyrirtækjum ansi hratt fækkandi. Þarf heilt lagafrumvarp í kringum þetta (Forseti hringir.) eða gætum við sett þetta inn í einhver af hinum lögunum sem við erum búin að ræða hérna í dag?