Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég nefndi Þorbjörn hérna áðan og uppsagnir þeirra í gær og það var einmitt tekið fram í fréttatilkynningunni frá þeim, og þess vegna var ég með fyrirvara um það hérna áðan þegar ég var að segja frá því hvort þessi tala myndi lækka eða ekki, að þeir teldu að svona úrræði þyrfti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þess þurfi og það er búið að hafa samband við fyrirtæki því þetta er jú byggt á samtölum starfshópsins sem hefur verið að vinna með Grindavíkurbæ og funda með fyrirtækjum og öðrum og þetta er ein af þessum óskum, þau hafa áhyggjur af því ef það lokast skyndilega og þau komast ekki. Ef Suðurstrandarvegur hefði t.d. núna orðið fyrir því að fá yfir sig hraun þá er ljóst að þeim verðmætum sem þá voru sannarlega í bænum hefði ekki verið bjargað innan tilskilins tíma. Það má alla vega leiða líkur að því að það hefði orðið mjög erfitt. Það eru svona aðstæður sem við þurfum að horfast í augu við, að staðan geti verið þeim hætti.