Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í greinargerð með málinu sem við vorum að ræða hér á undan var verið að kynna þessi mál, stuðningslán með ríkisábyrgð og síðan þetta afurðasjóðsmál sem við erum að ræða hér og síðan er vitnað í ályktun frá bæjarstjórn frá 14. febrúar þar sem kallað er eftir frekari úrræðum og að sveitarfélagið og fyrirtækin í Grindavík séu komin að þolmörkum. Mér sýnist þessi aðgerð ein og sér beinast að stöndugustu og sterkustu fyrirtækjunum í Grindavík, ríkustu fyrirtækjunum í Grindavík og ég velti því fyrir mér af því að ég minnist þess ekki að í ályktun bæjarstjórnarinnar hafi sérstaklega verið horft á þessi úrræði. Það voru alls konar úrræði sem var getið um í ályktun bæjarstjórnarinnar en ég minnist þess ekki að það hafi verið óskað eftir þessu úrræði. Ég velti fyrir mér: (Forseti hringir.) Hvers vegna erum við að koma með þetta úrræði þegar það eru mörg úrræði sem við getum nýtt núna til að hjálpa þeim sem eru hvað verst staddir á þessari stundu?