Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég get alveg skilið það að hér sé verið að setja upp hálfgerðan tryggingarsjóð fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, einkum þau sem þetta á beint við um þótt önnur gætu kannski fallið þar undir. Við höfum fengið aðila inn í efnahags- og viðskiptanefnd og ég trúi því að aðilar hafi komið fyrir atvinnuveganefnd þegar hæstv. ráðherra sat þar sem þingmaður. Það eru önnur fyrirtæki sem hafa lengi kallað eftir aðstoð og ekki fengið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi ekki sest yfir það hvað hægt væri að gera fyrir þessa þrjá flokka, en margir hafa undirflokka. Það eru fyrirtæki sem geta starfað í Grindavík, m.a. kemur þessi sjóður til móts við þau. Það eru fyrirtæki sem geta ekki starfað í Grindavík vegna þess að þau eru þjónustufyrirtæki sem byggðust á því að fólk byggi í samfélaginu. (Forseti hringir.) Svo eru það hinir sem geta haslað sér völl á öðrum stað. Rekstrarstyrkir hafa lítið verið notaðir. Það hefur komið fram í umræðunni hér í dag. Ég vil spyrja um áform ríkisstjórnarinnar um frekari aðstoð.