154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[16:51]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eins og hún nefndi var kannski verið að taka á þessum málum að hluta í frumvarpinu sem var til umræðu hér á undan. Jú, sannarlega hafa verið ræddar ýmsar leiðir varðandi það hvað hægt er að gera gagnvart smærri fyrirtækjum. Þess vegna er verið að leggja til þessi viðspyrnulán eða viðspyrnustyrki til að hjálpa þeim sem það kjósa af stað annars staðar. En það er alveg ljóst í mínum huga, þótt það sé þyngra en tárum taki, að einhverjir verða fyrir búsifjum í kjölfar þessara hamfara. Ég held að öllum verði ekki bjargað að fullu. Ég held að það sé alveg ljóst. Mér sýnist að það sé ekki svo að ríkið geti keypt út allt bæjarfélagið með húð og hári. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ekki. En það eru talsvert mörg úrræði sem hafa verið til umfjöllunar og ríkisstjórnin hefur lagt til. Hún er enn á vaktinni. Það er alltaf verið að fjalla um þessi mál. Í síðustu viku var rætt við forsvarsmenn smærri fyrirtækja.