154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[16:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir það hvað hún er lin af stað og hversu mikla hvatningu hún þarf til að koma fram með úrræði til að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum sem hafa orðið fyrir þessu rosalega tjóni. Á tyllidögum tala hæstv. ráðherrar um að Ísland sé gott samfélag sem einkennist af samhjálp og samhygð. Þegar talað er um Grindavík segja þau: 1% verður fyrir tjóni og þá komum við hin 99% og stöndum með þeim. En það eru of margir sem hafa ekki fengið aðstoð. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur, því að nú er þetta þing að klárast: Er það svo að hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að koma fram með frekari úrræði fyrir fólk og fyrirtæki í Grindavík? (Forseti hringir.) Telja þau að nú sé komið nóg og hinir verði þá að spjara sig?