Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að ríkisstjórnin hefur staðið þétt að baki Grindvíkingum. Alþingi allt hefur gert það, ekki bara ríkisstjórnin. Ég held að við höfum öll sameinast um það að gera hlutina talsvert hratt, til að mynda að byggja varnargarða til að verja byggðina. Það sýnir að við trúum því að við sjáum Grindavík koma til og blómstra. Það eru talsvert mörg úrræði. Það er engu lokið. Við lokum ekki á neitt með beinum hætti meðan eldsumbrot eiga sér stað. Það hefur komið skýrt fram í máli ríkisstjórnarinnar. Þess vegna eru flestöll mál sem við höfum fjallað um hér með þeim fyrirvara að þau gæti þurft að framlengja vegna þess að við vitum ekki hvenær eldsumbrotum lýkur. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála hv. þingmanni hvað það varðar að hér hafi ekki verið gripið hratt og örugglega utan um Grindvíkinga og íbúa þar. Það er örugglega þannig að fólki finnst seint nóg að gert. (Forseti hringir.) Ég er sammála því að það hefur verið gripið hratt og örugglega utan um fólk en tímabilinu er því miður ekki lokið.