154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[16:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég átta mig á því hvernig 6. gr. virkar og skilyrði sem eru þar. Ég er að spyrja um 1. gr. og öll önnur fyrirtæki sem gætu fallið undir þessi lög ef þau lenda í náttúruhamförum. Seyðisfjörður hefur væntanlega lent í tjóni út af skriðunni fyrir nokkru og fallið undir gildissvið 1. gr. en ekki 6. gr. og ekki getað fengið úr þessum sjóði, en myndi samt falla undir lögin. Ég velti því fyrir mér hvort það myndi búa til einhverja togstreitu og einhver réttindi gagnvart þeim aðilum sem falla undir gildissvið 1. gr. en ekki 6. gr. Ég spyr um þau fyrirtæki en ekki þau sem eru innan Grindavíkur. Svo velti ég því fyrir mér þegar settur er upp svona afurðasjóður. Þetta lyktar rosalega mikið af ríkisábyrgð. (Forseti hringir.) Þegar þetta er sett upp í formi sjóðs er í raun farið fram hjá hefðbundinni ríkisábyrgð á vissan hátt. Tæknilega séð sé ég ekki að það sé réttlætanlegt.