154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[16:59]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að hv. þingmanni þyki farið fram hjá einhverju tilteknu atriði eins og því að þetta sé ríkisábyrgð. Þessi sjóður er eins og Bjargráðasjóður, eins og við þekkjum og ég sagði í upphafi og vitnað er til í greinargerð. Ekki verða settir fjármunir í hann fyrr en að afloknu tjóni og eftir að það hefur verið metið. Það er ekki fyrir fram gefið að hægt sé að sækja í þetta endalaust. Þú getur ekki verið viss um að fá ábyrgð á einhverri tiltekinni fjárhæð eða tjóni. Ég lít alls ekki þannig á að þetta sé eitthvað þar sem farið væri fram hjá ríkisábyrgð. Það eru augljóslega ólík sjónarmið. Svona sjóður stendur fyrir því að taka utan um það ef það verður tjón, sem við vonum að verði ekki. Stjórn þessa sjóðs mun meta það á hverjum tíma hvort það er eitthvað sem fellur undir sjóðinn eða ekki. (Forseti hringir.) Öll fyrirtæki geta í sjálfu sér sótt um til sjóðsins en reglurnar eru til staðar varðandi úthlutun úr honum.