154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er hér til að ræða mál sem brennur á okkur öllum en snertir sérstaklega fólkið okkar og nágranna í Grindavík. Eins og við öll vitum glíma Grindvíkingar við gríðarlega erfiðar aðstæður um þessar mundir. Náttúruhamfarir sem dynja á bænum hafa sett allt á annan endann og skapað mikla óvissu fyrir alla, ekki síst fyrirtæki og atvinnulíf í bænum. Það er erfitt fyrir rekstraraðila að vita hvernig þeir eiga að halda sínu striki þegar hætta er á að þeir þurfi að rýma með litlum fyrirvara eða að rafmagn fari af og matvæli eða fóður skemmist. Svona aðstæður geta sett heilu fyrirtækin á hausinn. Þess vegna hefur þetta frumvarp um að setja á fót sérstakan Afurðasjóð Grindavíkurbæjar verið lagt fram á Alþingi.

Sjóðurinn á að veita styrki til fyrirtækja til að bæta óbeint tjón á afurðum og hráefni sem hlýst af náttúruhamförunum eða vegna rýmingar svæðisins. Markmiðið er að koma í veg fyrir að fyrirtæki leggist af eða flytjist í burtu. Umrætt frumvarp er hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda sem miða að því að bæta stöðu rekstraraðila. Frumvarpið felur með öðrum orðum í sér mögulega fjárhagsaðstoð til handa rekstraraðilum sem verða fyrir meiri háttar óbeinu tjóni á matvælum og fóðri sem rekja má til náttúruhamfara sem geisa í Grindavík. Gildissvið frumvarpsins nær til einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavík og verða fyrir slíku tjóni frá gildistöku laganna til loka árs 2024. Þetta er því tímabundið úrræði sem ætlað er að mæta þeim flóknu aðstæðum sem upp eru komnar. Óbeint tjón í skilningi frumvarpsins gæti t.d. falist í því að matvæli eða fóður í eigu rekstraraðila skemmist vegna rafmagnsleysis sem rekja má til náttúruhamfara eða rýmingar á starfsstöðvum fyrirtækja. Slíkar aðstæður skapa mikla óvissu fyrir rekstur fyrirtækja.

Því miður býðst fyrirtækjum í Grindavík ekki tryggingavernd gegn slíku tjóni sem alla jafna stæði til boða. Við núverandi aðstæður neita tryggingafélög að tryggja slíkt tjón og það fellur ekki undir Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða Bjargráðasjóð. Ef við ætlum að halda atvinnustarfsemi gangandi verðum við að finna leiðir til að brúa bilið. Eðli málsins samkvæmt er þörf á skýrum lagaramma um stuðning við umrædda rekstraraðila og þörf á því að draga úr áhættu þeirra eftir fremsta megni.

Afurðasjóður í frumvarpi þessu á einmitt að gera það. Hann verður sjálfstæður sjóður á vegum ríkisins með þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar. Stjórnin mun fara yfir umsóknir frá fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir tjóni og ákveða hvernig styrkjum er best varið hverju sinni. Styrkfjárhæðir geta verið mismunandi eftir atvinnugreinum og umfangi tjóns. Þetta verður sniðið að aðstæðum hvers og eins eftir bestu getu. Rekstraraðilar sem sækja um styrki úr Afurðasjóði þurfa að leggja fram umsókn innan tveggja mánaða frá tjónsatburði. Í henni skal koma fram hvert tjónið er ásamt upplýsingum um umfang þess. Sjóðurinn mun meta tjónið með hliðsjón af ástandi og raunverulegu verðmæti hins skemmda. Stjórnin getur kallað eftir frekari gögnum og aflað álits sérfróðra aðila eftir þörfum. Mikilvægt er að taka fram að rekstraraðilar fá ekki bætur ef tjónið er af eigin völdum, annaðhvort af ásetningi eða gáleysi, eða ef þeir gerðu ekki eðlilegar ráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir tjón, t.d. ef fyrirséð var að þyrfti að rýma en þeir minnkuðu ekki birgðir eða gerðu ekki áætlanir um að flytja verðmæti í tæka tíð.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að reyna að draga úr rekstraráhættu sem fyrirtæki í Grindavík standa frammi fyrir vegna náttúruhamfaranna og láta ríkið taka hana á sig að hluta. Það á að skapa meiri stöðugleika og festu fyrir atvinnulífið í bænum á meðan þessi óvissa ríkir. Frumvarp þetta sem er til umræðu hér er því mikil réttarbót sem dregur úr framangreindri áhættu rekstraraðila. Taka ber undir að það er mikilvægt að málið hljóti snögga en þó vandaða meðferð.

Mig langar að taka nokkur dæmi um fyrirtæki sem hljóta að falla undir þessi lög. Við erum t.d. með nýsköpunarfyrirtæki í Grindavík, Sæbýli, sem ræktar sæeyru. Hér er um gríðarleg verðmæti að ræða, um fimm sinnum meiri en í laxi. Í upphafi jarðhræringa var um ein og hálf milljón sæeyrna í eldisstöðinni. Nú eru þau í kringum hálfa milljón. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu voru það rafmagnstruflanir og heitavatnsleysi sem fór verst með ungviði sem var í ræktun. Þetta fyrirtæki aflaði ekki neinna tekna á síðasta ári því að afurðir verða tilbúnar til sölu innan fárra ára. Ég get ekki séð að þau falli undir það frumvarp sem við fjölluðum um fyrr í dag sem laut að rekstrarstuðningi við fyrirtæki í Grindavík. Ég trúi ekki öðru en að þetta fyrirtæki eigi rétt á því að fá bætt tjón sem það verður fyrir úr Afurðasjóðnum. Eins og ég kom inn á áðan fellur það undir tjón sem verður vegna rafmagnsleysis. Það segir reyndar ekki í frumvarpinu að þetta sé vegna tjóns sem verður í framtíðinni. Það er klárt mál að tjónið í þessu fyrirtæki, sem ég nefni sem dæmi, verður í kringum 100 millj. kr. Ég veit ekki hvort þessu fyrirtæki hefur tekist að flytja starfsemi sína eða hvort það hefur átt þess kost að flytja starfsemi sína. Það vekur furðu mína að ríkið hafi ekki styrkt tímabundinn flutning fyrirtækja frá Grindavík til að koma verðmætasköpun þeirra í skjól.

Hvað þetta mun kosta ríkissjóð fer eftir því hversu mikið tjón verður af völdum hamfaranna. Hugmyndin er að setja ekki peninga í sjóðinn nema eitthvert tjón verði. Samkvæmt útreikningum gæti heildarupphæð orðið 400 millj. kr. Það er áætlað með tilliti til eigin áhættu fyrirtækja og fer auðvitað líka eftir aðstæðum hverju sinni. Verðmætustu afurðirnar eru í sjávarútvegi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samanlagt verðmæti afurða sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum gæti verið hundruð milljóna króna á hverjum tíma.

Mig langar að vekja athygli á einu sem var í fréttum í gær. Stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Grindavíkur og eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins var að segja upp 56 starfsmönnum. Þetta er sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn. Mig langar að lesa upp úr fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum Þorbjarnar með leyfi forseta: „En við sjáum því miður ekki til lands hvað þetta varðar. Spár og mat vísindamanna á stöðu náttúruhamfaranna í Grindavík og aðgerðir yfirvalda leiða óhjákvæmilega til breytinga á starfsemi fyrirtækisins. Við munum áfram þrýsta á yfirvöld að gera okkur og öðrum fyrirtækjum kleift að halda starfsemi sinni áfram í Grindavík að gættu fyllsta öryggi.“

Hér er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með ákall til yfirvalda um það að þau geri fyrirtækjum kleift að halda starfsemi áfram í Grindavík. Það eru klár skilaboð frá þessu fyrirtæki um að stjórnvöld hafi ekki gert nóg til að þeir fái að halda áfram starfsemi sinni. Það er eitt sem ég skora á hæstv. matvælaráðherra að skoða sérstaklega, að tala við forsvarsmenn Þorbjarnar og sjá hver orsökin er fyrir uppsögn 56 starfsmanna í bænum.

Þó að vissulega sé í mörg horn að líta þegar slíkar aðgerðir eru ákveðnar held ég að flestir geti verið sammála um að Afurðasjóður sé til þess fallinn að veita mikilvægan stuðning við atvinnulíf í Grindavík á þessum fordæmalausu tímum. Hann skapar meira öryggi fyrir rekstraraðila og dregur úr líkum á að starfsemi leggist af eða flytjist annað með tilheyrandi áhrifum á íbúa bæjarins. Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við með afgerandi hætti til að tryggja sem mestan stöðugleika og dragi úr þeirri gríðarlegu óvissu sem fyrirtækin búa við. Ég fagna því að fram hafi komið frumvarp sem felur í sér lausn á þessu tiltekna vandamáli. Vissulega má ræða útfærslur en meginatriðin eru skýr, að skjóta styrkum stoðum undir atvinnustarfsemi í bænum með sérstökum stuðningi frá ríkisvaldinu. Ég bind miklar vonir við það að sjóðurinn, ásamt öðrum úrræðum ríkis og sveitarfélags, verði til þess að fyrirtæki sjái sér fært að halda áfram rekstri sínum og viðhalda starfsemi og störfum í Grindavík á meðan þessar erfiðu aðstæður blasa við.

Hér vil ég samt gera þann fyrirvara sem hefur komið fram í uppsögnum hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Þorbirni, þar sem þeir segja upp 56 starfsmönnum og eru með ákall til stjórnvalda um að bregðast við því og um að koma til móts við þarfir fyrirtækisins.

Þetta er einungis skammtímalausn en hún skiptir miklu máli meðan beðið er eftir því að jarðhræringar og umbrot í náttúrunni gangi niður og óvissa hverfi. Við vonum auðvitað öll að sú stund renni upp sem fyrst fyrir Grindvíkinga. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Grindavík muni rísa upp sterkari og reynslumeiri eftir þessar hamfarir eins og járn sem hert er í eldi. Þannig mun Grindavík koma út úr þessari eldraun.

Ég tel að það sé vissulega skref í rétta átt að leggja fram frumvarp um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar. Það er líka mjög mikilvægt, sem virðist ekki hafa verið gert í frumvarpi sem við ræddum fyrr í dag, að læra af reynslunni. Ég tel að við höfum ekki lært nægilega af reynslunni, og ekki gert nægilegar breytingar, þegar við framlengjum styrki sem felast í rekstrarstuðningi eða húsnæðisstuðningi og líka vegna greiddra launa. Það höfum við ekki gert. Við höfum notað módel sem á uppruna sinn í Covid-aðgerðunum, sem voru allt annars eðlis en aðgerðir í þeim náttúruhamförum sem nú eiga sér stað. Þar skiptir öllu máli að bjarga eignum, að koma í veg fyrir eignatjón og að bæta það eignatjón sem verður hjá einstaklingum og fyrirtækjum, og í þessu tilviki, með Afurðasjóð Grindavíkurbæjar og þau verðmæti sem verða til við rekstur fyrirtækja, að bæta meiri háttar óbeint tjón.

Það er líka mikilvægt að horfa til framtíðar, að horfa til þeirra verðmæta sem hefðu getað orðið til en verða ekki til vegna hamfara í Grindavík. Þar er mjög gott dæmi sem lýtur að fyrirtækinu Sæbýli sem ræktar sæeyru í Grindavík. Þar er fyrirtæki sem hefur starfað í mörg ár en tekjur fara ekki að skila sér fyrr en eftir þrjú eða fjögur ár. Það eru þessi fyrirtæki sem við verðum að horfa sérstaklega til. Nýsköpunarfyrirtæki eru undirstaða velmegunar á Íslandi og í Grindavík. Vissulega er Grindavík öflugur sjávarútvegsbær og þar eru miklar aflaheimildir en það eru þessi nýsköpunarfyrirtæki sem við horfum sérstaklega til. Við megum ekki sjá þau fara á hausinn eða fara úr rekstri vegna jarðhræringa í Grindavík.