154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu. Hann þekkir það auðvitað úr starfi fjárlaganefndar, þar sem við höfum afgreitt fjáraukalög vegna stöðunnar, að manni hefur á stundum fundist eins og atvinnuhlið þessara aðgerða hafi gleymst. Ég held að fulltrúar fyrirtækja á þessu svæði hafi fundað með mörgum þingflokkum, ef ekki öllum, hér á þingi. Ákall þeirra hefur verið algerlega skýrt um að ekki hafi verið nóg að gert.

Af því að þingmaðurinn nefnir líkindi við aðgerðir eða mikilvægi þess að við lærum af reynslunni, þá svíður dálítið að sjá teiknast upp sömu stef úr heimsfaraldri. Þar var góður vilji og góð markmið en þau skref sem voru stigin tóku ofboðslega langan tíma. Það er mjög hættulegt þegar við erum að tala um atvinnulíf rekstraraðila. Orð eins og súrefni heyrast og þá skiptir auðvitað máli hvenær súrefni berst. Það er algjör lykilbreyta.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, sem er búinn að gera grein fyrir því að hann styðji markmið þessa frumvarps. Það geri ég svo sannarlega líka. Hann lýsir því að hér sé um tímabundið úrræði að ræða. Við erum að tala um tjón sem ekki fellur undir tryggingavernd o.s.frv. En við þekkjum það líka að ákall rekstraraðila og fyrirtækja er að ekki hafi verið nóg að gert frá því að þessi ósköp hófust. Sér hv. þingmaður fyrir sér einhverjar þær aðgerðir sem bæta mætti við svona mál til að það næði betur utan um aðstæður þeirra rekstraraðila eða lögaðila sem frumvarpið tekur til?